Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hugtakið impressjónismi tengdist í upphafi myndlist franskra málara á síðasta fjórðungi 19. aldar. Þá tóku ýmsir listamenn upp á því að mála verk sem brutu gegn hefðbundnum stíl frásagnarmyndlistar. Í stað þess að láta málverkin túlka hefðbundna goðsögu eða annars konar frásögn, lögðu þeir aðaláherslu á ýmis konar samspil, birtu, ljóss og lita. Málverk franskra impressjónista áttu því fyrst og fremst að vekja hughrif, samanber heiti stefnunnar. Myndefnið var iðulega hversdagslegt og með impressjónisma hefst eiginlegt upphaf nútímamyndlistar.
Impressjónismi í tónlist kom fram litlu síðar og er með fyrstu tónlistarstefnum 20. aldar á Vesturlöndum, þó upphafið megi rekja aftur til loka 19. aldar. Franska tónskáldið Claude Debussy (1862-1918) er talinn vera frumkvöðull impressjónisma í tónlist. Þrátt fyrir það var hann lítt hrifinn af hugtakinu.
Tónlist Debussy einkenndist meðal annars af tónstigum sem áður höfðu lítt verið notaðir, til að mynda heiltónaskölum og pentatóník. Með notkun á þeim er tónverkið ekki leitt áfram af leiðsögutón, eins og átti við um verk sumra fyrirrennara hans. Tónverkið er þess vegna ekki bundið við frásögn heldur kemur það hughrifum til skila, líkt og impressjónísk myndlist.
Claude Debussy er talinn vera frumkvöðull impressjónisma í tónlist. Á myndinni sést hann leika á píanó árið 1893.
Ljóðlist franskra symbólista hafði nokkur áhrif á tónlist Debussys og aðra franska tónlist um og eftir aldamótin 1900. Fyrsta höfuðverk Debussy, Forleikur að síðdegi skógarpúkans (1894), sótti til dæmis innblástur í kvæði franska skáldsins Stéphane Mallarmé (1842-1898). Áhrifin voru fyrst og fremst fengin úr hugblæ kvæðisins en ekki var um svonefnt tónaljóð að ræða sem byggir á frásagnarháttum.
Áhugi á Austurlöndum og tónlist þess heimshluta hafði veruleg áhrif á tónsmíðar Debussys, sér í lagi svonefnd gamalen-tónlist sem á rætur að rekja til Jövu og Balí. Fyrsti opinberi flutningur gamelansveitar á Vesturlöndum fór fram á heimssýningunni í París 1887. Debussy hlustaði á og var að sögn svo dolfallinn að hann þurfti að loka sig af um hríð til að ná utan um það sem hann heyrði. Gamelan-tónlist er stundum líkt við náttúruhljóð og þar er því augljós samsvörun við impressjónískra tónlist.
Helstu píanóverk Debussys voru 24 prelúdíur sem komu út á árunum 1910 og 1913. Þessi verk vekja ýmis hugrif í anda impressjónismans og sum heiti verkanna minna á myndlistarverk, til að mynda Hæðirnar í Anacapri, Stúlkan með hörgula hárið og Sölnuð lauf.
Önnur tónskáld sem sömdu verk í impressjónískum stíl eru til dæmis Maurice Ravel (1875-1937) og Eric Satie (1884-1925). Ravel samdi að minnsta kosti tvö verk sem tengjast vatni, þeirra á meðal fjölhljóma verkið Jeux d'eau (Gosbrunnar) árið 1901, og Gaspard de la nuit frá árinu 1908. Fyrsti kafli þess byggir á kvæði um vatnadís sem tælir þá sem hlusta á söng hennar niður í undirdjúpin. Það var nokkuð algengt að frönsk impressjónísk tónskáld byggðu verk sín á vísunum til vatns, enda má segja að vatn og margháttaður hljóðheimur þess sé hliðstæða samspils ljóss og lita hjá málurum impressjónismans.
Efni til hlustunar og áhorfs á vefnum YouTube:
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvers konar tónlistarstefna er impressjónismi?“ Vísindavefurinn, 18. júlí 2023, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=52821.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2023, 18. júlí). Hvers konar tónlistarstefna er impressjónismi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=52821
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvers konar tónlistarstefna er impressjónismi?“ Vísindavefurinn. 18. júl. 2023. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=52821>.