Claude Monet (1840-1926) var meistari í meðferð ljóssins og brautryðjand í litameðferð. Hann málaði oftast vatn og landslag. Málverkin sem impressjónistarnir settu upp á sýningunni þóttu brjóta þær reglur sem átti að fylgja til að búa til 'fína' list. Hefðbundin list átti að vera í frásagnarstíl. Málverkið átt að túlka sögu, goðsögu eða ljóð og áhorfandinn gat notið listarinnar vegna þess að hann skildi hana. Flestum sem komu á sýningu impressjónista þóttu málverkin ljót og ósiðleg, hlægileg og hneykslanleg. Verkin voru að auki óseljanleg. Þetta tímabil telst þó vera upphaf nútímamyndlistar vegna þess að á þessum tíma var afstaða áhorfandans til listaverksins að breytast. Édouard Manet (1832-1883) var leiðtogi þessarar byltingar í listasögunni. Málverkin hans sögðu engar sögur og höfðu engan boðskap. Myndirnar bara voru. Áhorfandinn þurfti að leita eftir dulinni merkingu listaverksins í huga sér. Manet sat oft ásamt lærisveinum sínum á kaffihúsi í París og ræddi um þessa nýju nálgun til listarinnar. Niðurstaða þeirra var sú að myndir ættu ekki að byggjast á þekkingu heldur sjónskynjun. Litafræði fór mikið fram og impressjónistarnir hugsuðu mikið um hvernig ljós hegðar sér og hvaða áhrif viðlægir og frádrægir litir hafa á sjónskynjun. Þeir nýttu sér þekkingu sem eðlisvísindin höfðu aflað á þessum tíma á eðli ljóss og lita. Þeir héldu út í náttúruna og skoðuðu þar ljós og litabreytingar. Í náttúrunni var ljósið margbreytilegt og þá átti ljósið í málverkunum einnig að vera það. Málverk af náttúrunni átti að vera samsett úr formlausum litflekkjum. Þær áttu að sýna það ferska og það sem býr í andartakinu. Ljós, litir, líf og hreyfing eru einkenni á málverkum impressjónista. Listamaður sem tileinkaði sér impressjónískan stíl átti að mála hratt án þess að hugsa sig um og ekki fegra það sem hann sá í náttúrunni.
Auguste Renoir (1841-1919) málaði margar myndir af fólki. Hann notaði litina eins og Monet en var fínlegri og nákvæmari. Impressjónistum þótti hefðbundin list íhaldsöm og gamaldags því að þar var náttúran oft notuð sem leikmynd eða bakgrunnur einhverrar sögu. Litirnir voru oft dökkir og pensildrættirnir mjög fínlegir. Málverkin voru tilgerðarleg og á þeim mátti oft sjá hóp af fólki með sama líkamsvöxt. Impressjónistarnir vildu heldur mála fólk og landslag án ýktra goðsagna. Þeir breyttu því hvernig fólk hugsar um (mynd)list. Þegar blómaskeiði þeirra lauk voru listamenn ekki lengur eins bundnir reglum um hvað ætti að mála eða hvernig væri réttast að gera það. Heimildir og hliðsjónarrit
Pischel, Gina og Þorsteinn Thorarensen, Listasaga Fjölva, III. bindi, Reykjavík, Fjölvaútgáfan 1977.
Skemmtilegt vefsetur þar sem saga impressjónismans er sögð í máli og myndum.