Í æsku inniheldur botnlanginn (e. appendix) mikið af eitlavef sem birtist 2 vikum eftir fæðingu og er mest áberandi á unglingsárum. Eftir það minnkar eitlavefurinn í botnlanganum og hverfur hægt og bítandi. Þrátt fyrir þetta er ekki vitað hvaða hlutverki botnlanginn gegnir nákvæmlega í mönnum. Í dýrum með heitt blóð er mest af eitlavef staðsett í hægri hluta ristilsins en í nokkrum hryggdýrum (mannöpum) er mest af eitlavef í sjálfum botnlanganum. Starfsemi botnlangans er þannig tengd þessum eitlavef. Í fuglum er botnlanginn tilkomumeira líffæri og stjórnar þroska ónæmiskerfisins eins og miltans og eitlavefs um líkamann. Ef þetta líffæri er tekið úr fuglinum leiðir það til vanþroska og framleiðsluskerðingar á mótefnum. Í kanínum er sama sagan. Í ýmsum dýrum telst botnlanginn þannig vera mikilvægur fyrir þroska ónæmiskerfisins. Botnlanginn getur auðveldlega stíflast enda er hann mjóstur næst ristlinum (cecum). Þetta gerist til dæmis ef hörð efni setjast í opið eða ef bólgur í veggjum botnlangans loka honum. Botnlanginn þenst síðan út og fleiri einkenni koma fram sem yfirleitt eru kennd við botnlangabólgu (appendicitis). Ef hún gengur nógu langt getur botnlanginn sprungið og innihaldið dreifst um kviðarholið. Þetta getur valdið lífhimnubólgu (peritonitis) en varnir líkamans koma þó oft í veg fyrir að mál fari á versta veg. Botnlangabólga er yfirleitt læknuð með því að fjarlægja botnlangann með einfaldri skurðaðgerð sem nefnist botnlanganám. Það tekur yfirleitt innan við klukkutíma með svæfingu og veldur litlum óþægindum á eftir. En með því að tilgangur þessa líffæris er á huldu má geta þess til gamans að ungir skurðlæknar gantast stundum með það að forsjónin hafi komið honum þarna fyrir til að þeir geti æft sig á að taka hann burtu! Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Eru apar með botnlanga og ef svo er, geta þeir þá fengið botnlangakast? eftir Jón Má Halldórsson
- Wikipedia.com. Sótt 23.11.2010.