Hár er myndað úr dauðum þekjufrumum. Sá endi hárs sem er inni í húðinni nefnist rót. Rótin er inni í hársekk inni í því lagi húðarinnar sem nefnist leðurhúð. Í hársekknum myndast nýjar þekjuvefsfrumur í sífellu. Þekjuvefsfrumurnar hyrnast svo og deyja og þrýstast út í ræmum sem við köllum hár. Þar sem nýjar frumur halda áfram að myndast í rótinni þrýstast gömlu, dauðu frumurnar áfram lengra og lengra út og hárið vex.Að meðaltali vex hárið á höfði okkar 0,44 millimetra á dag, eða rúmlega 13 mm á mánuði. Vaxtarhraðinn getur þó verið breytilegur milli einstaklinga. Klipping getur látið hárið líta betur út og gert það líflegra sem aftur kann að hafa þau áhrif að fólki finnist hárvöxturinn hraðari fyrst á eftir. Það er líka eðlilegt að fólki finnist hárið vaxa hraðar eftir rakstur, það sést hlutfallslega miklu meiri munur á vextinum á ákveðnum tíma ef hárið er mjög stutt. Klipping eða rakstur hefur hins vegar engin áhrif á vaxtarhraða hársins. Hárið er dautt og rótin þar sem nýjar frumur myndast þannig að hárið vex, veit ekkert af því þó klippt sé af hinum enda hársins. Nýjar frumur halda bara áfram að myndast á sama hraða og áður þar til ákveðinni lengd er náð og hárið hættir að vaxa. Að lokum má geta þess að við gerð þessa svars fundust engar upplýsingar um það að vaxtarhraði hárs aukist við það að vera í vatni. Heimild og mynd:
- MadSci: Does cutting hair, or shaving a beard, make it grow faster? If so, why? (Skoðað 11. 5. 2009).
- Hair - Wikipedia. (Sótt 12. 12. 2016).
- Er það satt, að ef að maður rakar líkamshár eða hárið á hausnum, að það vaxi hraðar eftir á?
- Vex hárið hraðar þegar það er nýklippt, en þegar ekki er búið að klippa það í lengri tíma?
- Vex hár hraðar í vatni?