Sumar af eyjunum sem eru skammt undan Bretlandi hafa orðið frægar fyrir ýmiss konar fjármálastarfsemi svo sem bankaþjónustu sem er veitt einstaklingum og fyrirtækjum utan hins eiginlega starfsvettvangs þeirra. Þetta á til dæmis við um Ermarsundseyjarnar Jersey og Guernsey og um eyjuna Mön sem er á Írlandshafi milli Bretlands og Írlands. Þessar eyjar eru ‚offshore‘ í landfræðilegum skilningi, miðað við Bretland, og það orð færðist síðan yfir á þá starfsemi sem þar er stunduð. Þannig eru til dæmis orðin ‚offshore funds‘ höfð um peninga sem eru geymdir á slíkum stöðum og mætti kalla ‚aflandsfé‘ á íslensku og einnig er talað um ‚offshore centers‘ eða ‚aflandsmiðstöðvar‘. Orðið ‚offshore‘ hefur síðan fylgt starfseminni hvar sem hún er, en auk lítilla eyja á ýmsum stöðum í heiminum, til dæmis í Karabíska hafinu, hefur þessi starfsemi verið stunduð til dæmis í fjöllóttum smáríkjum á borð við Sviss, Liechtenstein og Andorra, auk Lúxemborgar. Þess konar ríki eru að sjálfsögðu ekki „offshore“ eða „aflands“ í upphaflegum, landfræðilegum skilningi þó að hin afleidda merking orðsins eigi við um þau ekki síður en eyjarnar sem fyrst voru nefndar hér á undan.
Í bókinni Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi? eftir Hannes Hólmstein Gissurarson (Reykjavík: Nýja bókafélagið, 2001) er sérstakur kafli um „sjö lítil eylönd“. Athyglisvert er hvaða eyjar þá er átt við, en þær eru Jersey, Guernsey, Mön, Bermúda, Bahama-eyjar, Bresku jómfrúreyjar og Cayman-eyjar. En þegar þetta er skrifað, á árinu 2009, er að öðru leyti ekki hægt að mæla með textanum sem þarna er borinn fram. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað þýðir orðið aflands ríki? Er þetta nýtt orð? eftir Guðrúnu Kvaran
- Walking Britain. Sótt 29.4.2009.
1 Í ensk-íslenskri orðabók á vefnum, sem virðist nýleg, segir: off·shore 1 af landi; frálands-: ~ breezes 2 skammt undan landi, grunnmiða-; grunnsævis-: ~ fisheries/islands 3 [viðsk] sem er utan heimalands, aflands-: ~ banking/funds