Engin grísk völundarhús hafa fundist við uppgröft fornleifafræðinga. Hins vegar má geta þess að á árunum 1900 til 1905 gróf breski fornleifafræðingurinn sir Arthur John Evans (1851-1941) upp mikla höll í Knossos á Krít. Höllin í Knossos hefur stundum verið sögð völundarhúsi líkust því að hún er gífurlega stór og skipulag hennar flókið. Hallarstæðið er rúmir tveir hektarar eða yfir 20 þúsund fermetrar. Höllin var á mörgum hæðum með á annað þúsund herbergi og sali. Evans varð sjálfum hugsað til sögunnar um Mínos konung og Mínótárosinn í völundarhúsinu og nefndi því menninguna sem hann hafði grafið upp Mínóíska menningu en hún er einnig nefnd Krítarmenningin. Höllin í Knossos var fyrst byggð á sautjándu öld f.Kr. og var reglulega stækkuð allt fram á fjórtándu öld f.Kr. Mínóíska menningin á Krít rekur sögu sína allt aftur til ársins 3650 f.Kr. en hallarmenningin svonefnda á sautjándu til fjórtándu öld f.Kr. var gullöld hennar. Eftir það hófst langt hnignunarskeið og leið Mínóíska menningin undir lok eftir elleftu öldina f.Kr. Mínóarnir voru ekki grískumælandi menn en Grikkir réðu fyrst ríkjum á Krít eftir að gullöld Mínóanna lauk. Ekki fer mörgum öðrum sögum af völundarhúsum í grískum heimildum. Gríski sagnaritarinn Herodótos segir frá einu slíku í Egyptalandi í annarri bók sinni um Persastríðin (II.148 o.áfr.). Völundarhúsið sem hann segir frá var sunnan Moiriosvatns (sem í dag heitir Karúnvatn), skammt frá Krókódílopólis eða Krókódílaborg en þar mun krókódílaguðinn Sobek hafa verið dýrkaður. Hann segir að völundarhúsið hafi verið jafnvel stórfenglegra að sjá en sjálfir pýramídarnir. Völundarhúsið sem hann lýsir er á tveimur hæðum með 3000 herbergi, helmingur þeirra neðanjarðar en hinn helmingurinn ofanjarðar. Herodótos kveðst sjálfur hafa gengið um á efri hæðinni og skoðað sig um en segir að Egyptarnir hafi meinað honum aðgang að neðri hæðinni. Þar áttu að hafa verið grafhvelfingar konunga en einnig helgra krókódíla. Hann segir að herbergi hallarinnar hafi verið fallega skreytt en gefur í skyn að skipulagið hafi verið fremur ruglingslegt vegna herbergjafjöldans. Frá neðri hæðinni var hægt að komast um göng inn í pýramída sem stóð þar skammt frá. Höll þessi var uppgötvuð á nítjándu öld skammt frá pýramídanum í Hawara. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er sagan á bak við orðið völundarhús? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hver var Mínotáros í grískri goðafræði? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- BRONZE-AGE GREECE AND THE TROJAN WAR. Sótt 27.4.2009.