Það er vissulega svo, að í helstu rituðum heimildum um menningarsamfélög er ljóst, að karlmenn gegna þar meginhlutverki í öllu því er lýtur að stjórnun samfélagsins, verkstjórn sameiginlegra verkefna og flestu því sem snertir samband við æðri máttarvöld. Þeir eru herstjórar, dómarar, prestar. Þeir búa líka yfir þekkingu á ritmáli og ráða þar af leiðandi því, sem lesið verður um samfélag það sem þeir búa í. Fátt er sagt um hlut kvenna, en þó er ljóst, að konur eru víðast mikils metnar sem lífgefendur: þær ala börnin og halda þannig við þjóðfélaginu, og þær búa yfir þeim mætti sem viðheldur frjósemi mannfólksins, dýranna og náttúrunnar. Án kvenna væri ekkert mannlíf! Þegar spurt er um yfirburði er einfaldast að svara því svo, að víða voru karlmenn taldir hafa yfirburði í mörgum hlutum, en konur gegndu hinu mikilvæga hlutverki að viðhalda þjóðum. Hvort kynið var og er háð hinu, og því ekki um að ræða algera yfirburði annars hvors þeirra þegar á heildina er litið. En það eru aðallega karlmenn sem hafa skrifað söguna, og það hefur kannski ruglað svolítið myndina því hverjir teljast miklir og minnisverðir og hverjir eru látnir sitja óforþént í skugganum! Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvenær er talið að siðmenning eins og við þekkjum hana hafi byrjað? eftir Harald Ólafsson
- Hvað nær mannkynssagan langt aftur í tímann? eftir Guðmund Hálfdanarson
- Hvaða álit hafði Aristóteles á konum? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvað gerðu konur á víkingaöld og hvernig klæddu þær sig? Hver var staða þeirra? eftir Steinunni J. Kristjánsdóttur
- Hvað er femínismi og hver er líkleg ástæða til fordóma karla gagnvart femínistum? eftir Þorgerði Einarsdóttur
- About.com. Sótt 30.9.2009.