Fyrir fimm til sjö milljónum ára urðu miklar breytingar á högum hýena. Villihundar og úlfar bárust þá til Evrasíu frá Norður-Ameríku um Bering-landbrúna og höfðu betur á þeim svæðum þar sem hýenur ríktu áður. Vegna þess varð ákveðin tegundasérhæfing hjá hýenum, meðal annars varð forfaðir jarðúlfsins (Proteles cristata) sérhæfð skordýraæta og aðrar hýenur urðu að hræætum. Ein tegund hýena fór frá Evrasíu til Norður Ameríku. Það var tegundin Chasmaporthetes ossifragus sem minnir mjög á blettatígur í útliti. Hún hvarf hins vegar af sjónarsviðinu fyrir um 1,5 milljón árum. Steingerðar leifar hennar hafa fundist allt suður til Arizona og norðurhluta Mexíkó. Blómaskeið hýena var sennilega á Pleistocene-tímabilinu frá 1,8 milljón árum fram til loka síðasta jökulskeiðs. Vísindamenn hafa fundið níu tegundir á þessu tímabili og svo virðist sem hýenur hafi verið ríkjandi hræætur þess tíma og gátu þær nýtt sér ógrynni kjöts sem sverðtígrar (aðallega Homotherium) skildu eftir sig. Tilkomumest slíkra hýena var Pachycrocuta sem vó alt að 200 kg. Hún hafði svo öfluga kjálka að hún gat sennilega mulið bein fíla. Mjög líklega er hún forfaðir nútíma blettahýena en eftir að hinir stórvöxnu sverðtígrar hurfu af sjónarsviðinu og ljón og tígrisdýr komu til sögunar, urðu miklar breytingar á högum þessarar risahýenu. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvort eru hýenur skyldari hundum eða köttum?
- Hvað eru margar hýenur í Afríku?
- Hvað hlaupa hýenur hratt?
- Alan Turner: Prehistoric Mammals. National Geographic, Firecrest Books Ltd. 2004.
- Macdonald, David. The Velvet Claw. 1992.
- Turner, Alan og Antón, Mauricio (1996). "The giant hyaena Pachycrocuta brevirostris (Mammalia, Carnivora, Hyaenidae)". Geobios 29 (4): 455-468.
- Hyaena Specialist Group. Sótt 21.4.2009.