Þrátt fyrir að hugmyndin um að hið opinbera hafi blekkt okkur öll síðustu fjörutíu ár kitli kannski ímyndunaraflið, þá er hægt að útskýra stjörnuleysið á aðeins einfaldari hátt. Allar myndir af geimförunum eru teknar í mjög sterku sólarljósi, af því að úti í geimnum er ekkert andrúmsloft og engin ský til að dreifa geislum sólarinnar. Þar að auki er yfirborð tunglsins ljóst og endurkastar ljósi vel og geimbúningarnir eru allir hvítir. Allar ljósmyndir sem eru teknar á tunglinu eru því teknar í mikilli birtu, á yfirborði sem endurkastar ljósi vel og eru af mönnum í hvítum búningum, líkt og af snjókarli sem stendur á jökli á heiðskírum og björtum degi. Til þess að mynd af geimförunum verði ekki yfirlýst þarf því að stilla myndatökubúnaðinn á lítið ljósnæmi. Stjörnurnar í geimnum skína einfaldlega ekki nógu skært til að sjást á myndum sem eru teknar undir þessum kringumstæðum, hvort sem slíkar myndir eru teknar úti í geimnum eða hér á jörðinni. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvar á tunglinu lenti Apollo 11? eftir Sævar Helga Bragason.
- Af hverju komu fótspor þegar menn stigu á tunglið en ekki gígur þegar geimfarið lenti? eftir Sævar Helga Bragason og Þorstein Vilhjálmsson.
- Er það satt að mannkynið hafi aldrei stigið á tunglið og myndirnar frá Apollo 11 hafi verið teknar á svæði 51, háleynilegri stofnun Bandaríkjanna? eftir HMS.
- Stjörnufræðivefurinn: Apollo 11