Kyrrðarhafið var sérstaklega valið því það er fremur slétt svæði. Á því eru hins vegar tiltölulega margir gígar og þeir félagar Neil Armstrong og Buzz Aldrin um borð í tunglferjunni Erninum lentu nærri því ofan í einum þeirra. Nokkrum sekúndum fyrir lendinguna varð Armstrong að stíga á eldsneytisgjöfina og stýra ferjunni sjálfur yfir gíg sem er nokkuð stór, 180 metrar í þvermál og 30 metra djúpur og kallast West. Tunglferjan lenti því örugglega á yfirborði tunglsins, 6 km frá upphaflega áætluðum lendingarstað, og átti þá eftir eldsneyti sem myndi endast í 30 sekúndur til viðbótar. Það mátti því litlu muna að fyrsta tungllendingin endaði með ósköpum.
Apollo 11 tunglferjan lenti um það bil 400 metra vestur af West-gígnum og 20 km suð-suðvestur af gígnum Sabine D á suðvesturhluta Kyrrðarhafsins. Tunglyfirborðið á lendingarsvæðinu samanstóð af fínu bergi og einstaka bergmolum. Lendingarstaðurinn er 41,5 km norð-norðaustur af vestuhöfða Kant-hásléttunnar, sem er næsta hálendisvæði. Surveyor 5 geimfarið er um það bil 25 km norð-norðvestur af lendingarsvæði Apollo 11 og árekstrargígurinn sem myndaðist þegar Ranger 8 tunglkönnuðurinn rakst á tunglið er 69 km norðaustur af lendingarstaðnum. Sex klukkustundum eftir lendinguna þann 20. júlí, 1969, tók Neil Armstrong svo loks skrefið sitt fræga. Stuttu síðar fylgdi Buzz Aldrin í kjölfarið og varð þar með annar maður í sögunni til að stíga fæti á annan hnött en jörðina. Síðar fetuðu tíu aðrir geimfarar í fótspor þeirra en nánar má lesa um það í svari Einars Arnar Þorvaldssonar við spurningunni Hvað hafa margir menn farið til tunglsins og hvernig líta þeir út?. Félagarnir tveir eyddu 21 klukkustund og 36 mínútum á hrörlegu en áhugaverðu yfirborði tunglsins og sneru heim til jarðar með 21,7 kg af tunglgrjóti, ásamt þriðja geimfaranum Michael Collins, sem dvaldi um borð í Kólumbíuferjunni á meðan tunglgöngunni stóð.
- Stjörnufræðivefurinn: Apollo 11
- Vefsíða Smithsonian-safnsins um Apollo-leiðangrana.
- Vefsíða um Apollo-leiðangrana eftir Dan Durda.
- Vefsíða um Apollo-leiðangrana.