Íslendingar hafa nýtt fjallagrös allt frá upphafi byggðar. Fjallagrös hafa verið notuð sem lyf, meðal annars við kvillum í öndunar- og meltingarvegi, enda hafa þau græðandi áhrif á slímhúð. Svokölluð brjóstsaft, sem var sterkt fjallagrasaseyði blandað með kandíssykri, var fáanleg í þorpum snemma á síðustu öld. Saftin var notuð líkt og hóstasaft nú á dögum, við kvillum eins og kvefi, hæsi eða þyngslum fyrir brjósti. Ennfremur hafa fjallagrös verið notuð til matar í aldir. Íslendingar notuðu fjallagrös mikið á öldum áður til að drýgja kornmeti í brauð og grauta, enda var korn oft af skornum skammti fyrr á öldum. Fjallagrasate var mikið drukkið áður fyrr og sjálfsagt enn, því margir tína fjallagrös sér til yndis og ánægju. Að lokum fylgja með uppskriftir af hollum og góðum fjallagrasadrykkjum: Fjallagrasate: 2 tsk fjallagrös 2-3 dl vatn Hunang, sítróna Hellið sjóðandi vatni yfir grösin, látið standa undir loki í 10 mínútur. Bragðbætið með hunangi eða sítrónu. Fjallagrasamjólk: 50 g fjallagrös ½ lítri vatn 1 lítri mjólk ½ -1 tsk salt 2-6 msk hrásykur eða hunang Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er munurinn á fléttum og skófum? eftir Hörð Kristinsson
- Hvað getið þið sagt mér um fléttur? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað er samlífi, gistilífi, samhjálp og sníkjulíf dýra? eftir Jón Má Halldórsson
- Hallgerður Gísladóttir. Gömul læknisráð: Á næstu grösum.Læknablaðið. 4. tbl. 2000.
- Mala Skola. Sótt 2.4.2009.