Þegar talað er um vampírur er yfirleitt átt við mannverur sem risið hafa upp frá dauðum og viðhalda lífskrafti sínum með því að drekka blóð annarra manna eða dýra. Vampírur eru á ferli um nætur, oft í leðurblökulík en á daginn þurfa þær að leggjast til hvílu í gröf sinni eða í líkkistu fylltri með mold úr heimalandi þeirra. Frægasta vampíra allra tíma er líklega Drakúla greifi úr samnefndri sögu Bram Stokers frá árinu 1897. Drakúla er talinn vera byggður á goðsögum um hinn raunverulega Drakúla fursta af Valakíu (um 1431-1476). Drakúla þýðir "sonur drekans", en faðir prinsins gekk undir nafninu Drakúl, eða "drekinn". Orðið 'Tepes' er komið úr tyrkneskum annálum frá 15. og 16. öld og vísar til þeirrar iðju furstans að stjaksetja óvini sína. Hægt er að lesa meira um Drakúla í svari við spurningunni Hver var Drakúla?
Vampírutrú var algengust Austur-Evrópu, en var einnig nokkuð algeng annars staðar í Evrópu og í Asíu. Nú á dögum er almennt viðurkennt að vampírur séu ekki til nema í skáldsögum og kvikmyndum. Samt sem áður er enn í dag til fólk sem annað hvort trúir á vampírur eða líkir eftir lífsstíl þeirra. Meira er hægt að lesa um þetta í Wikipediu, frjálsu alfræðiorðabókinni. Heimildir
- Vampire. Encyclopædia Britannica Online.
- Vampire bat. Encyclopædia Britannica Online.
- Vampires.
- Mynd af vampíru er af Gothic.gr.
- Mynd af Vlad Tepes er af Kunsthistorisches Museum Vienna.
Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2005.