Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Drakúla?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Drakúla er þekktastur sem sögupersóna í samnefndri skáldsögu írska rithöfundarins Bram Stokers (1847-1912). Sagan Drakúla kom fyrst út árið 1897 og er að mestu í bréfaskáldsöguformi, en dagbókarbrot, blaðafrásagnir og skeyti drífa frásögnina einnig áfram. Bréfaskáldsagan á rætur að rekja til 18. aldar og af slíkum sögum er Raunir Werthers unga (1774) eftir þýska höfundinn Goethe kunnust. Drakúla á einnig margt sameiginlegt með gotneskum-sögum, þar sem sagt er frá yfirnáttúrlegum og hryllilegum atburðum. Saga enska rithöfundarins Horace Walpoles, Otranto-kastalinn frá árinu 1764, sem bar undirtitilinn A Gothick Story, er fyrsta gotneska-sagan.

Auglýsingaveggspjald kvikmyndar um Drakúla frá árinu 1931.

Drakúla greifi er blóðsuga eða vampíra og í fyrstu virðist Stoker hafa ætlað honum nafnið Wampyr greifi. Nafnið Drakúla rakst hann á í fágætri bók eftir William nokkurn Wilkinson um sögu Moldavíu og Valakíu, sem nú tilheyrir Rúmenía. Þar segir frá Voivode Drakúla sem réðst gegn Tyrkjum á 15. öld. Það sem gæti hafa vakið athygli Stokers er útskýring Wilkinsons á nafninu Drakúla í neðanmálsgrein. Þar segir hann að nafnið „Drakúla merkir djöfull á tungu Valakíumanna.“ Wilkinson er eina þekkta heimild Stokers fyrir nafninu Drakúla.

Stoker virðist ekki hafa vitað mikið meira um hinn raunverulega Drakúla fursta af Valakíu (um 1431-1476) en það litla sem hann hafði úr bók Wilkinsons. Faðir Drakúla hét Vlad og nefndi sig Drakúl, sem er dregið af latneska orðinu draco og merkir ‘dreki’. Sonur hans nefndi sig þess vegna Drakúla, eða ‘son drekans’.

Í rúmenskum sagnaritum gengur Drakúla vanalega undir nafninu Vlad Tepes. Orðið ‘Tepes’ er komið úr tyrkneskum annálum frá 15. og 16. öld og vísar til þeirrar iðju furstans að stjaksetja óvini sína. Vlad virðist sjálfur aldrei hafa notað nafnið Tepes um sig en í rúmenskum söfnum eru varðveitt nokkur bréf og skjöl þar sem Vlad nefnir sig Drakúla.

Þýsk trérista frá 16. öld sem sýnir Drakúla stjaksetja óvini sína.

Í Þýskalandi komu út ýmsir bæklingar og smárit um Drakúla frá og með miðri fimmtándu öld til fyrri hluta þeirrar sextándu þar sem segir frá voðverkum hans. Einn þessara bæklinga bar nafnið Hin hræðilega og furðulega saga af ógurlegum harðstjóra sem drekkkur blóð og er kallaður Drakúla prins. Þar segir meðal annars af því að Drakúla hafi ekki aðeins stjaksett óvini sína heldur einnig soðið í potti.

Um tilurð sögu Stokers af Drakúla greifa eru til ýmsar misáreiðanlegar frásagnir. Samkvæmt einni þeirri á honum að hafa vitrast sagan í martröð sem hann fékk eftir að hafa étið yfir sig af krabbakjöti.

Heimildir og myndir

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

9.9.2002

Spyrjandi

Viktor Traustason, f. 1989

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hver var Drakúla?“ Vísindavefurinn, 9. september 2002, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2696.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2002, 9. september). Hver var Drakúla? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2696

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hver var Drakúla?“ Vísindavefurinn. 9. sep. 2002. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2696>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Drakúla?
Drakúla er þekktastur sem sögupersóna í samnefndri skáldsögu írska rithöfundarins Bram Stokers (1847-1912). Sagan Drakúla kom fyrst út árið 1897 og er að mestu í bréfaskáldsöguformi, en dagbókarbrot, blaðafrásagnir og skeyti drífa frásögnina einnig áfram. Bréfaskáldsagan á rætur að rekja til 18. aldar og af slíkum sögum er Raunir Werthers unga (1774) eftir þýska höfundinn Goethe kunnust. Drakúla á einnig margt sameiginlegt með gotneskum-sögum, þar sem sagt er frá yfirnáttúrlegum og hryllilegum atburðum. Saga enska rithöfundarins Horace Walpoles, Otranto-kastalinn frá árinu 1764, sem bar undirtitilinn A Gothick Story, er fyrsta gotneska-sagan.

Auglýsingaveggspjald kvikmyndar um Drakúla frá árinu 1931.

Drakúla greifi er blóðsuga eða vampíra og í fyrstu virðist Stoker hafa ætlað honum nafnið Wampyr greifi. Nafnið Drakúla rakst hann á í fágætri bók eftir William nokkurn Wilkinson um sögu Moldavíu og Valakíu, sem nú tilheyrir Rúmenía. Þar segir frá Voivode Drakúla sem réðst gegn Tyrkjum á 15. öld. Það sem gæti hafa vakið athygli Stokers er útskýring Wilkinsons á nafninu Drakúla í neðanmálsgrein. Þar segir hann að nafnið „Drakúla merkir djöfull á tungu Valakíumanna.“ Wilkinson er eina þekkta heimild Stokers fyrir nafninu Drakúla.

Stoker virðist ekki hafa vitað mikið meira um hinn raunverulega Drakúla fursta af Valakíu (um 1431-1476) en það litla sem hann hafði úr bók Wilkinsons. Faðir Drakúla hét Vlad og nefndi sig Drakúl, sem er dregið af latneska orðinu draco og merkir ‘dreki’. Sonur hans nefndi sig þess vegna Drakúla, eða ‘son drekans’.

Í rúmenskum sagnaritum gengur Drakúla vanalega undir nafninu Vlad Tepes. Orðið ‘Tepes’ er komið úr tyrkneskum annálum frá 15. og 16. öld og vísar til þeirrar iðju furstans að stjaksetja óvini sína. Vlad virðist sjálfur aldrei hafa notað nafnið Tepes um sig en í rúmenskum söfnum eru varðveitt nokkur bréf og skjöl þar sem Vlad nefnir sig Drakúla.

Þýsk trérista frá 16. öld sem sýnir Drakúla stjaksetja óvini sína.

Í Þýskalandi komu út ýmsir bæklingar og smárit um Drakúla frá og með miðri fimmtándu öld til fyrri hluta þeirrar sextándu þar sem segir frá voðverkum hans. Einn þessara bæklinga bar nafnið Hin hræðilega og furðulega saga af ógurlegum harðstjóra sem drekkkur blóð og er kallaður Drakúla prins. Þar segir meðal annars af því að Drakúla hafi ekki aðeins stjaksett óvini sína heldur einnig soðið í potti.

Um tilurð sögu Stokers af Drakúla greifa eru til ýmsar misáreiðanlegar frásagnir. Samkvæmt einni þeirri á honum að hafa vitrast sagan í martröð sem hann fékk eftir að hafa étið yfir sig af krabbakjöti.

Heimildir og myndir

...