Helsti gallinn við þessar rannsóknir er sá að þeir sem greinst hafa með krabbamein hafa oft reynt að leita skýringa á veikindum sínum. Þeim er því í fersku minni andlega álagið sem þeir urðu fyrir einhverjum árum áður, en það sama er ekki hægt að segja um viðmiðunarhópinn. Þess vegna verða þessar rannsóknir oft falskt jákvæðar, það er þær sýna samhengi þótt það sé raunverulega ekki til staðar. Þegar farið er yfir niðurstöður rannsókna þessarar gerðar benda sumar til þess að stress geti tengst myndun krabbameina og aðrar ekki, þannig að spurningunni verður ekki svarað með þeim. Hvað segja hóprannsóknir? Hóprannsóknir eru almennt taldar betri en spurningalistarannsóknir til þess að svara spurningum um orsakir krabbameina. Þær eru hins vegar dýrar í framkvæmd því helst þarf að safna upplýsingum mörgum árum áður en krabbameinið greinist til þess að hægt sé að mæla áhættuþáttinn (stress) án truflunar. Hóprannsóknir eru mismunandi, stundum eru notaðir afmarkaðir hópar, til dæmis starfsmenn stórra fyrirtækja og þeim fylgt eftir, stundum er fólk kallað inn til rannsókna með skipulögðum hætti líkt og gert er hjá Hjartavernd, þar sem það er beðið um að svara ýmsum spurningum af spurningalista. Til að svara spurningunni um það hvort stress valdi krabbameinum hefur til dæmis verið fylgst með hópum sem hafa lent í mjög erfiðri lífsreynslu eins og foreldrum sem misst hafa barn eða átt barn sem hefur orðið alvarlega veikt. Um er að ræða stórar rannsóknir með þúsundum þátttakanda. Tíðni krabbameina hefur verið reiknuð út hjá þessum hópum og borin saman við tíðni annarra í sama þjóðfélagi. Ekkert bendir þá til þess að aukin hætta á krabbameini fylgi hópnum sem á erfiða lífsreynslu að baki. Hinsvegar hefur aðeins ein hóprannsókn verið birt þar sem upplýsingar um stress eða alvarlega lífsviðburði voru mældar með spurningalista áður en greining krabbameinsins var gerð. Einstaklingum í þeim hópi var fylgt eftir í að meðaltali níu ár. Í hóprannsókninni tóku um það bil 10.000 manns þátt og 1100 fengu krabbamein á meðan hópnum var fylgt eftir. Þeir sem upplifðu alvarlega lífsviðburði fengu ekki oftar krabbamein en aðrir í rannsókninni.
Lífstíllinn skiptir máli Ef teknar eru saman niðurstöður ofangreindra rannsókna, er svarið við spurningunni að ekki virðist ástæða til þess að óttast að alvarlegir lífsviðburðir valdi krabbameini. Hér að ofan var stress skilgreint sem alvarlegur lífsviðburður. Annars konar stress eins og við þekkjum það í almennu tali, þar sem of mikið álag og tímaskortur fer saman, ýtir hins vegar oft undir óholla lifnaðarhætti. Þess háttar stress tengist gjarnan hinum vestræna lífsstíl, það er auknum reykingum og kyrrsetulífi. Hinn stressaði neytir oftar óhollustu sem einkennist af orkuríku fæði, mettuðum fitusýrum, kolvetnum og síðast en ekki síst minnkar neyslan á ávöxtum og grænmeti. Þessi lífsstíll eykur áhættu á myndun krabbameins og ber að forðast. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Af hverju verður fólk stressað? eftir Sæmund Hafsteinsson og Jóhann Inga Gunnarsson
- Ef maður hefur einu sinni fengið krabbamein er þá líklegt að maður fái krabbamein aftur? eftir Jón Gunnlaug Jónasson
- Er mjólk krabbameinsvaldandi? eftir Jóhönnu Eyrúnu Torfadóttur
- Af hverju er krabbamein kallað þessu nafni? eftir Jóhann Heiðar Jóhannsson
- Bergelt C ofl., British Journal of Cancer (2006) 95, 1579 – 1581.
- Roberts- FD ofl., Cancer (1996) 77, 1089-1093.
- Johansen C ofl., British Journal of Cancer (1997) 75, 144–148.
- Kvikstad A, European Journal of Cancer (1994) 30A, 473–477.
Þetta svar birtist upprunalega í Fréttablaðinu 28.3.2009.