Fyrstu dagana eftir slysið voru allir íbúar í 30 km radíus frá kjarnorkuverinu fluttir á brott, í allt um 115.000 – 135.000 manns. Vikurnar, mánuðina og árin eftir slysið voru íbúar á svæðum fjær kjarnorkuverinu einnig fluttir á brott frá heimkynnum sínum.
Bærinn Tsjernobyl, sem kjarnorkuverið er kennt við, stendur tæplega 15 km suðaustur af kjarnorkuverinu. Fyrir slysið bjuggu á bilinu 12.500-15.000 manns í bænum en heimildum ber ekki alveg saman um íbúatöluna. Allir voru fluttir burt fyrstu dagana eftir slysið. Tsjernobyl er þó ekki algjörlega mannlaus í dag, því þar eru um eða yfir 500 manns, meðal annars fjölmargir sérfræðingar, svo sem eðlisfræðingar, geislafræðingar, kjarnorkusérfræðingar og læknar, auk manna sem vinna að viðhaldi kjarnorkuversins. Þetta fólk hefur þó ekki fasta búsetu í bænum heldur dvelur þar eingöngu í stuttan tíma í senn. Borgin Pripyat stendur nær kjarnorkuverinu en bærinn Tsjernobyl, eða í aðeins um 3 km fjarlægð. Þegar slysið varð bjuggu tæplega 50.000 manns í borginni, meðal annars flestir þeirra sem störfuðu í kjarnorkuverinu. Strax eftir slysið voru allir íbúarnir fluttir á brott og hefur enginn búið þar síðan. Pripyat er því draugaborg þar sem hús og önnur mannvirki grotna smám saman niður.
Fyrir utan þá sem dvelja í Tsjernobyl í tengslum við vinnu og áður hafa verið nefndir, er búseta eða dvöl ekki leyfileg innan svæðis sem er í 30 km radíus frá kjarnorkuverinu. Þó eru nokkrir sem búa þar í trássi við reglur og eru þeir látnir óáreittir. Ferðaskipuleggjendur hafa boðið upp á dagsferðir inn á þetta annars lokaða svæði en til þess þarf sérstakt leyfi. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Í hvað er kjarnorka aðallega notuð? eftir Ágúst Valfells.
- Hvað er kjarnorka og hvernig verkar hún? eftir Ágúst Valfells.
- Hvernig verka stöðvar til endurvinnslu á kjarnorkuúrgangi og hvaða áhrif hafa þær á umhverfið? Er hægt að hafa slíka stöð á Íslandi? eftir Pál Theodórsson.
- Wikipedia, skoðað 1. 2. 2009:
- Chernobyl: Assessment of Radiological and Health Impact á The Nuclear Energy Agency. Skoðað 1. 2. 2009.
- Nuclear Ghost Town á Encarta. Sótt 2. 2. 2009.
Hvað búa margir í Tsjernobyl? Er hægt að búa þar?