Á skilríkjunum eru skráðar ýmsar upplýsingar; raðnúmer skilríkis, nafn og mynd, útgáfudagur, lögreglunúmer lögreglumanns og kennitala ef um er að ræða starfsmann, sem ekki hefur lögreglunúmer, og loks undirskrift og útgáfustimpill ríkislögreglustjóra. Í reglugerðinni um lögregluskírteini kemur fram að lögreglumenn skuli verða við ósk um að sýna lögregluskilríki þegar þeir eru við störf. Á því viðmiði eru þó ákveðnar undantekningar, þar sem heimilt er að víkja frá þessu við handtöku á manni, ef ólæti standa yfir, eða hann beðinn um það af manni sem bersýnilega er undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna, ögrandi eða í miklu uppnámi. Í starfi lögreglunnar geta komið upp aðstæður sem krefjast þess að lögreglumenn séu óeinkennisklæddir og er gert ráð fyrir því í þeim reglum sem gilda um störf lögreglunnar. Í 6. gr. fyrrnefndrar reglugerðar er hins vegar tekið fram að óeinkennisklæddur lögreglumaður skuli við störf „að jafnaði gera viðkomandi borgara það ljóst, að hann sé lögreglumaður, áður en hann ber upp erindi sitt. Þetta getur hann gert með því að framvísa lögregluskilríkjunum,“ segir í reglugerðinni en sömu fyrirvarar gilda um að í ákveðnum aðstæðum getur lögreglumaður vikið sér undan því að framvísa skilríki. Slíkar aðstæður geta komið upp þar sem lögreglumenn eiga erfitt um vik að sýna skilríki og því eru ákveðnar undantekningar frá þessari reglu. Frekar lesefni á Vísindavefnum:
- Þarf ég að hlýða ef lögreglan stoppar mig og skipar mér að koma í lögreglubílinn? eftir Árna Helgason
- Nei. Sótt 22.5.2009.