Í 15. gr. lögreglulaganna kemur fram að lögreglu sé „heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau.“ Í 2. mgr. 15. gr. segir svo að í þessu skyni sé
lögreglu m.a. heimilt að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk, fyrirskipa stöðvun eða breytingu á aðgerðum eða starfsemi, fara inn á svæði í einkaeign og fyrirskipa brottflutning fólks af þeim.Í 19. gr. laganna segir að almenningi sé „skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.“ Samkvæmt þessum lagaákvæðum hefur lögreglan skýrar heimildir til að framfylgja lögum og hafa afskipti af borgurunum enda slíkt óhjákvæmilegt til að halda uppi lögum og reglu. Þannig ber að fara eftir tilmælum og skipunum lögreglu, til dæmis þegar bifreiðar fólks eru stöðvaðar og ökumenn beðnir um að koma yfir í lögreglubílinn. Í 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga segir að handhafar lögregluvalds skuli gæta þess að mönnum verði ekki gert tjón, óhagræði eða miski framar en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur. „Ekki mega þeir beita sakaðan mann harðræði fram yfir það sem lög heimila og nauðsynlegt er til þess að vinna bug á mótþróa hans gegn lögmætum aðgerðum né á annan hátt beita hann ólögmætri þvingun í orði eða verki, svo sem með hótunum.“ Þessi regla kveður skýrt á um að gangi lögregla of langt í framkvæmd lögreglustarfa hafi lögreglumenn gerst brotlegir við lög og slíkt athæfi ber umsvifalaust að kæra. Frekara lesefni á Vísindavefnum: Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hver eru réttindin mín við það að lögreglan stoppi mig? Þarf ég að fara í bíllinn til þeirra og er hægt að skipa mér til þess?Mynd:
- Vandom's World. Sótt 19.5.2009.