Margir líkamsvessar eru flúrljómandi á sýnilega sviðinu. Eitt dæmi er sæði. En blóð er ekki flúrljómandi. Glæparannsóknafólkið þarf því að nota efni sem verður flúrljómandi þegar það hvarfast við blóð. Þetta efni kallast fluorescein og lýsir með appelsínugulum lit. Efninu er úðað yfir flötinn sem er til rannsóknar og það verður flúrljómandi þar sem það kemst í snertingu við blóð. Ljósgjafinn sem notaður er til að örva fluorescein þarf að innihalda öldulengdir í kringum 450nm, sem svarar til fjólublás litar og má ekki innihalda öldulengdir í grennd við 600nm sem svarar til appelsínuguls litar. Flúrljómunin er síðan skoðuð með hlífðargleraugum sem aðeins hleypa appelsínugula hluta litrófsins í gegn. Við myndatöku er notuð tilsvarandi litasía á myndavélina. Blóðblettirnir koma fram sem appelsínugular skellur á dekkri bakgrunni. Þessa aðferð til að finna blóðbletti er hægt að nota í dagsbirtu. Önnur og eldri aðferð til að gera blóðbletti sýnilega nýtir fyrirbæri sem er kallað hvarfljómun (e. chemiluminescence). Þá er efninu Luminol úðað á flötinn þar sem það hvarfast við blóðið. Myndefnið, sem er afrakstur hvarfsins, er í örvuðu ástandi þegar það myndast og losar sig við umfram orku með því að senda frá sér bláleitar ljóseindir. Hér þarf því ekki ytri ljósgjafa eins og fyrir flúrljómunina, þvert á móti kallar aðferðin á myrkvun til að greina hvarfljómunina frá umhverfisljósi. Hvarfljómunin endist í þessu tilfelli aðeins í nokkrar sekúndur svo einungis er hægt að skoða lítil svæði í einu og myndataka er erfið vegna rökkurs og lítils svigrúms í tíma.
Gulgrænir ljósastautar sem oft eru seldir á útihátíðum nýta hvarfljómun til ljósframleiðslu. Þeir innihalda tvö efni sem í byrjun eru aðskilin með skilvegg. Þegar veggurinn er brotinn og efnin blandast og hvarfast fer stauturinn að lýsa. Um þetta má lesa meira í svari Ágústs Kvaran við spurningunni Af hverju lýsa sjálflýsandi armbönd og þess háttar?
Frekara lesefni:
- Hvað eru útfjólubláir geislar? eftir Hildi Guðmundsdóttur
- Hvers vegna er sólin gul og grasið grænt? eftir JGÞ
Þegar tæknideildir rannsaka glæpavettvang er stundum notað sérstakt ljós sem getur kallað fram blóðbletti sem ekki sjást með berum augum. Hvers konar ljós er um að ræða? Hvað heitir það og hvernig virkar það?Og spurning Öldu:
Af hverju nota rannsóknarmenn í þáttum eins og CSI alltaf vasaljós þegar þeir eru að skoða glæpavettvang? Er ekki betra að kveikja ljósin?