Þessir strengir eru svo stuttir að jafnvel með öflugustu mælitækjum nútíma öreindafræði, svonefndum agnahröðlum, er ekki hægt að greina lengd þeirra og því koma þeir fram í tilraunum eins og punktlaga agnir. Þó lengd strengjanna sé ekki mælanleg hefur hún afgerandi áhrif á gerð kenningarinnar.Þó að strengjafræðin sé frekar flókin kenning gefur hún að ýmsu leyti einfaldari mynd af öreindum og víxlverkunum þeirra heldur en hefðbundnar öreindakenningar. Í strengjafræðinni eru aðeins örfáar gerðir af strengjum, jafnvel aðeins ein, en í hefðbundum öreindakenningum er fjallað um fjölmargar mismunandi öreindir sem fram koma í tilraunum. Í strengjafræði koma mismunandi öreindir aðeins fram sem mismunandi sveifluhættir. Svona útskýrir Lárus muninn á þessu í fyrrnefndu svari:
Það er vel þekkt úr sígildri eðlisfræði að mismunandi tónar gítarstrengs svara til sveifluhátta hans og má segja að öreindir, eins og rafeindir, ljóseindir eða kvarkar, séu allar mismunandi tónar á einum og sama grundvallarstreng náttúrunnar.Heimildir og frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig hljómar strengjakenningin og hver er hin sennilegasta minnsta eining? eftir Lárus Thorlacius
- Hvað eru öreindir? eftir JGÞ
- Hver er minnsta öreindin? eftir Lárus Thorlacius
- Getur rúmið sem við hrærumst í haft fleiri víddir en þær þrjár sem við eigum að venjast? eftir Lárus Thorlacius
- String theory á Wikipedia.org. Sótt 20.10.2010.