Fram að lokum 19. aldar var atómið eða frumeindin talin vera grunneining efnisins. Gríska orðið atóm merkir ódeilanlegur. Síðan kom í ljós að atóm voru samsett úr kjörnum og rafeindum og seinna uppgötvuðu menn að kjarnarnir eru samsettir úr enn smærri ögnum sem kallast róteindir og nifteindir. Hver róteind og hver nifteind er síðan sett saman úr enn smærri ögnum sem nefnast kvarkar. Nú telja flestir vísindamenn að rafeindir og kvarkar séu sannar öreindir, það er að segja ekki samsettar úr öðrum eindum. Samkvæmt svonefndu viðteknu líkani öreindafræðinnar (e. the standard model) er hægt að skipta öreindum í tvo flokka: bóseindir og fermíeindir. Fermíeindirnar eru meginuppistaða hins eiginlega efnis en bóseindirnar flytja krafta á milli öreinda. Bóseindirnar eru þess vegna líka kallaðar burðareindir. Kvarkar og rafeindir eru fermíeindir en ljóseind er dæmi um bóseind. Ljóseind er burðareind rafsegulkraftsins. Heimildir og frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hver er minnsta öreindin? eftir Lárus Thorlacius
- Ljóseind er sín eigin andeind, nánari skýring? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað er Higgs-bóseind og hvers vegna er hún stundum kölluð Guðseindin? eftir Kristján Rúnar Kristjánsson
- Platonic Conception. Sótt 7.10.2010.