Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er tigla í erfðafræði?

Guðmundur Eggertsson

Með tiglu (e. mosaic) er átt við einstakling sem er gerður úr tveimur eða fleiri erfðafræðilega ólíkum frumugerðum.

Tiglur voru fyrst rannsakaðar hjá ávaxtaflugunni (Drosophila melanogaster). Dæmi fundust um flugur sem voru með tvo X-litninga (XX) í öðrum helmingi líkamans en aðeins einn X-litning (XO) í hinum helmingnum. Þær höfðu þroskast úr okfrumum með tvo X-litninga, sem er arfgerð kvenflugu, en annar X-litningurinn hafði hins vegar tapast vegna mistaka við frumuskiptingu í öðrum helmingi líkamans við upphaf fósturþroskunar. Afleiðingin varð sú að í sama einstaklingnum komu fram tvær ólíkar frumulínur með ólík kyneinkenni enda þarf ekki Y-litning hjá ávaxtaflugunni til þess að karleinkenni komi fram heldur er nóg að annan X-litninginn vanti. Þessar flugur eru að hálfu leyti karlflugur þrátt fyrir að hafa þroskast úr okfrumu sem að öllu eðlilegu hefði átt að verða að kvenflugu. Slíkar flugur eru kallaðar kyntiglur.

Á meðfylgjandi mynd sést fluga sem vinstra megin hefur öll einkenni karlflugu en hægra megin einkenni kvenflugu. Annar X-litningurinn hefur víkjandi gen fyrir hvít augu og stutta vængi og þessi einkenni koma fram vinstra megin. X-litningurinn með ríkjandi genin hefur tapast þar en hann er hins vegar virkur hægra megin. Augað þeim megin er þess vegna rautt og vængurinn miklu stærri.



Ávaxtafluga með einkenni karlflugu vinstra megin en einkenni kvenflugu hægra megin.

Hormónar eiga ekki þátt í kynákvörðun hjá ávaxtaflugum og því geta komið fram einstaklingar sem eru sannkallaðar kyntiglur með sýnilegum hætti eins og sést á myndinni. Hjá spendýrum, þar sem kyneinkenni eru háð hormónum sem berast um allan líkamann, er slíkt útilokað þótt tiglun með tilliti til arfgerðar frumna geti vel komið fyrir. Ólíkt ávaxtaflugum þarf reyndar Y-litning til þess að karleinkenni komi fram hjá mönnum og XO-einstaklingar eru því konur.

Tiglun getur líka orsakast af stökkbreytingum einstakra gena í líkamsfrumum. Þá geta komið fram frumulínur sem bera stökkbreytinguna út í líkamann. Afleiðingarnar eru stundum áberandi, til dæmis ljós lokkur í dökku hári, en oftar ber lítið á þeim. Tiglun getur enn fremur verið af völdum sjaldgæfra víxla milli samstæðra litninga við skiptingu líkamsfrumna. Sé einstaklingur arfblendinn um víkjandi gen geta slík víxl orðið til þess að fram komi frumur sem eru arfhreinar um þessi gen. Þetta var fyrst athugað hjá ávaxtaflugunni en er líka þekkt hjá manninum.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um litninga og erfðir, til dæmis:Önnur svör um svipað efni má nálgast með því að smella á leitarorð hér fyrir neðan.

Mynd:

Griffiths A.J.F. o.fl. 1996. An Introduction to Genetic Analysis. 6. útg. New York: W.H. Freeman and Company.

Höfundur

Guðmundur Eggertsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

30.5.2005

Spyrjandi

Elsa Ruth Gylfadóttir

Tilvísun

Guðmundur Eggertsson. „Hvað er tigla í erfðafræði?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5024.

Guðmundur Eggertsson. (2005, 30. maí). Hvað er tigla í erfðafræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5024

Guðmundur Eggertsson. „Hvað er tigla í erfðafræði?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5024>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er tigla í erfðafræði?
Með tiglu (e. mosaic) er átt við einstakling sem er gerður úr tveimur eða fleiri erfðafræðilega ólíkum frumugerðum.

Tiglur voru fyrst rannsakaðar hjá ávaxtaflugunni (Drosophila melanogaster). Dæmi fundust um flugur sem voru með tvo X-litninga (XX) í öðrum helmingi líkamans en aðeins einn X-litning (XO) í hinum helmingnum. Þær höfðu þroskast úr okfrumum með tvo X-litninga, sem er arfgerð kvenflugu, en annar X-litningurinn hafði hins vegar tapast vegna mistaka við frumuskiptingu í öðrum helmingi líkamans við upphaf fósturþroskunar. Afleiðingin varð sú að í sama einstaklingnum komu fram tvær ólíkar frumulínur með ólík kyneinkenni enda þarf ekki Y-litning hjá ávaxtaflugunni til þess að karleinkenni komi fram heldur er nóg að annan X-litninginn vanti. Þessar flugur eru að hálfu leyti karlflugur þrátt fyrir að hafa þroskast úr okfrumu sem að öllu eðlilegu hefði átt að verða að kvenflugu. Slíkar flugur eru kallaðar kyntiglur.

Á meðfylgjandi mynd sést fluga sem vinstra megin hefur öll einkenni karlflugu en hægra megin einkenni kvenflugu. Annar X-litningurinn hefur víkjandi gen fyrir hvít augu og stutta vængi og þessi einkenni koma fram vinstra megin. X-litningurinn með ríkjandi genin hefur tapast þar en hann er hins vegar virkur hægra megin. Augað þeim megin er þess vegna rautt og vængurinn miklu stærri.



Ávaxtafluga með einkenni karlflugu vinstra megin en einkenni kvenflugu hægra megin.

Hormónar eiga ekki þátt í kynákvörðun hjá ávaxtaflugum og því geta komið fram einstaklingar sem eru sannkallaðar kyntiglur með sýnilegum hætti eins og sést á myndinni. Hjá spendýrum, þar sem kyneinkenni eru háð hormónum sem berast um allan líkamann, er slíkt útilokað þótt tiglun með tilliti til arfgerðar frumna geti vel komið fyrir. Ólíkt ávaxtaflugum þarf reyndar Y-litning til þess að karleinkenni komi fram hjá mönnum og XO-einstaklingar eru því konur.

Tiglun getur líka orsakast af stökkbreytingum einstakra gena í líkamsfrumum. Þá geta komið fram frumulínur sem bera stökkbreytinguna út í líkamann. Afleiðingarnar eru stundum áberandi, til dæmis ljós lokkur í dökku hári, en oftar ber lítið á þeim. Tiglun getur enn fremur verið af völdum sjaldgæfra víxla milli samstæðra litninga við skiptingu líkamsfrumna. Sé einstaklingur arfblendinn um víkjandi gen geta slík víxl orðið til þess að fram komi frumur sem eru arfhreinar um þessi gen. Þetta var fyrst athugað hjá ávaxtaflugunni en er líka þekkt hjá manninum.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um litninga og erfðir, til dæmis:Önnur svör um svipað efni má nálgast með því að smella á leitarorð hér fyrir neðan.

Mynd:

Griffiths A.J.F. o.fl. 1996. An Introduction to Genetic Analysis. 6. útg. New York: W.H. Freeman and Company. ...