Ókapinn hefur ekki verið þekktur lengi á Vesturlöndum. Fornegyptar voru hins vegar kunnugir honum og landkönnuðurinn Henry Morton Stanley (1841-1904) heyrði ýmsar sögusagnir um ókapann í könnunarferðum sínum í Kongó. Innfæddir þar nefndu hann “atti”. Á ferðum um svæðið sáu vestrænir leiðangursmenn stundum í afturendann á dýrinu þegar það flúði undan þeim í gegnum skóglendið. Þar sem ókapinn hefur rendur á afturendanum, álitu þeir að að það væri einhver óþekkt tegund frumskógarsebradýra. Sir Harry Johnston (1858-1927), sem gegndi stöðu landstjóra breska heimsveldisins í Úganda, auk þess að vera ástríðufullur grasafræðingur og landkönnuður, komst á snoðir um pigmea í Evrópu sem þýskur sirkusstjóri hafði til sýnis. Johnston frelsaði pigmeana, sjálfsagt gegn sæmilegri greiðslu, og lofaði þeim að þeir skildu snúa aftur til heimkynna sinna. Hinir þakklátu pigmear fræddu Johnston um dýrið og fóru með hann inn í regnskóginn til að sýna honum fótspor ókapans. Johnston sannfærðist þá um að dýrið væri af meiði staktæðra hófdýra (Artiodactyla) og áleit hann að ókapinn væri einhvers konar skógarhestur. Johnston sá aldrei lifandi ókapa en komst yfir skinn dýrsins og hauskúpu. Náttúrufræðingar sem rannsökuðu þessa líkamshluta flokkuðu ókapann réttilega sem tiltölulega náskyldan gírafanum og fékk hann fræðiheitið Okapia johnstoni árið 1902, til heiðurs landsstjóranum. Þess má geta að fyrsta lifandi eintak ókapans var flutt til Evrópu árið 1918, til Antwerpen í Belgíu. Steingervingafræðingar hafa borið kennsl á nokkrar tegundir útdauðra ættkvísla Giraffidae-ættarinnar. Ein þeirra kunnustu er Sivatherium eða siva-ófreskjan eins og dýrið gæti heitið á íslensku. Hér til hliðar sést endurgerð á dýrinu eins og það gæti hafa litið út. Sivatherium var hyrnt líkt og dádýr en minnti mjög á samanrekinn gíraffa. Það var um 2,2 metrar á hæð. Önnur útdauð ættkvísl var Samotherium, eins konar frumstæður gíraffi. Samotherium líktist gíraffanum að nokkru leyti en var mun lágvaxnari. Alls hefur á þriðja tug útdauðra ættkvísla gíraffaættarinnar verið lýst en hér verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim. Frekara lesefni:
- Hvaða dýr búa í Kongó? eftir Jón Má Halldórsson
- Getur þú sagt mér allt um gíraffa? eftir Jón Má Halldórsson
- The Evolution of Artiodactyls, Donald R. Prothero og Scott E. Foss. The Johns Hopkins University Press. 2007.
- Vertebrate Palaeontology. Michael J. Benton and John Sibbick. Blackwell publishing. 2004.
- Wikimedia.org
- Animal Pictures Archive