Í venjulegu efni eru nær eingöngu þrjár tegundir af eindum: rafeindir, róteindir og nifteindir. Rafeindir hafa hleðsluna –e, róteindir +e en nifteindir hafa enga hleðslu. Nær alltaf er jafnmikið af rafeindum og róteindum í efninu og þá hefur efnið í heild sinni enga hleðslu. Til þess að hlaða það og gera rafmagnið „sýnilegt“, þarf að sjá til þess að ekki sé sama hlutfall á milli rafeinda og róteinda í efninu. Þá er hægt að nýta sér að rafeindirnar eru miklu léttari en róteindirnar og þar að auki oft laustengdar atómum efnisins. Rafeindirnar er þess vegna hægt að færa frá einu efni yfir á annað og hlaða þannig hlutinn. Ef við greiðum þurrt hár með þurri greiðu þá færast rafeindir frá hárinu yfir á greiðuna og bæði greiðan og hárið hlaðast. Greiðan fær neikvæða hleðslu, þar sem fleiri rafeindir eru á henni eftir að við greiðum okkur, en hárið sem tapar rafeindum fær jákvæða hleðslu, þar sem fleiri róteindir eru eftir þar en rafeindir. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig get ég búið til rafmagn heima hjá mér með einhverju sem er til á öllum heimilum? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Hvernig eru rafhlöður búnar til? eftir JGÞ
- Hvað er rafmagn? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvernig myndast þrumur og eldingar? eftir Harald Ólafsson og Þórð Arason
- Hvernig framleiðir hrökkáll rafmagn? eftir Loga Jónsson
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.