183. gr. Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum …1) eða fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru. Ákveða skal með dómi, hvort vinningi af fjárhættuspili eða veðmáli skuli skilað aftur eða hvort hann skuli gerður upptækur. 184. gr. Hver, sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, skal sæta sektum …1) eða fangelsi allt að 1 ári.Samkvæmt 183. gr. er ljóst að ólöglegt er að hafa fjárhættuspil og veðmál að atvinnu en þá þarf að átta sig á því hvað átt er við með því að hafa eitthvað að atvinnu. Þarf viðkomandi að hafa reglulegar tekjur af fjárhættuspili eða er nægilegt að taka við og við þátt í fjárhættuspilum? Þetta er ekki útskýrt nánar í lögunum eða lögskýringargögnum og því verður að reyna að ráða í merkingu ákvæðisins. Hafa verður í huga að um refsiákvæði er að ræða og þá gildir sú lögskýringarregla að allur vafi og óljóst orðalag er skýrt þröngt. Gera má ráð fyrir því að dómstólar fari einungis eftir lagabókstafnum í slíkum málum og fari ekki út fyrir orðalag ákvæðisins. Eðlilegast er því að líta svo á að þetta ákvæði áskilji ákveðna ástundun, það er að fjárhættuspilin séu spiluð reglulega og með gróðavon í huga. Þannig félli til dæmis utan þessarar reglu ef lítill hópur félaga hittist við og við til að spila. Sama gildir um fjárhættuspil á Netinu, ástundunin þarf að vera mikil til að hægt sé að líta svo á að viðkomandi hafi slíkt að atvinnu.
Í ákvæði 183. gr. hegningarlaganna segir að sá sem hafi atvinnu af því að koma öðrum til þátttöku í fjárhættuspili sé brotlegur við lög. Hér þarf einnig að velta fyrir sér hvað falli undir orðalag ákvæðisins og athæfið verður að sama skapi að falla undir ákvæðið með skýrum hætti. Dæmi um það gæti verið þegar haldið er úti húsnæði eða aðstöðu þar sem staðið er fyrir fjárhættuspili. Slíkir dómar hafa gengið hér á landi. Sem dæmi má nefna að í dómi frá 2004 staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms yfir manni sem hafði staðið fyrir rekstri fjárhættuspils og veðmálastarfsemi í húsnæði sem hann hafði á leigu og var hann dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundna fangelsisvist. Lögsöguvandamál á Netinu Rekstur og uppihald netsíðna með fjárhættuspili gæti einnig fallið undir það orðalag ákvæðisins að koma öðrum til þátttöku í fjárhættuspilum. Málið er þó flóknara þegar kemur að Netinu, enda er hægt að hýsa vefsíður hvar sem er í heiminum. Því þarf að taka tillit til lögsögu ríkja og ólíkra reglna sem gilda á þessu sviði frá einu ríki til annars. Til að mynda eru sumar af vinsælustu pókersíðum vefsins hýstar í litlum ríkjum þar sem litlar sem engar reglur gilda en innan Evrópu eru reglurnar einnig mjög ólíkar. Til að mynda er að breskum lögum heimilt samkvæmt Gambling Act of 2005 að halda úti vefsíðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og fengnu leyfi frá þar til gerðum stjórnvöldum (UK Gambling Commission). Sömu sögu er að segja um Möltu, en þar er rekstur slíkra netsíðna leyfður. Í öðrum ríkjum er fjárhættuspil á vefnum alfarið bannað (Kýpur, Þýskaland, Eistland, Grikkland, Holland og Pólland). Innri markaður Evrópu Sú spurning vaknar því hvernig fara eigi með vefsíður sem starfa á grundvelli leyfis frá ríki sem veitir leyfi fyrir slíkri starfsemi og starfa í ríki sem bannar slíka starfsemi eða gera ströng skilyrði, til dæmis þar sem veitt er einkaleyfi til slíkrar starfsemi. Dómstólar, bæði Evrópudómstóllinn og dómstólar í einstökum aðildarríkjum, hafa í sumum tilfellum vikið til hliðar einkaleyfum og sérleyfum ef grundvöllur slíkrar einokunar byggir á mismunun á grundvelli þjóðernis eða felur í sér ólögmætar hömlur á fjórfrelsisákvæðum Evrópuréttarins (sem dæmi má nefna niðurstöðu fransks dómstóls frá 2007 og dóma Evrópudómstólsins í máli Placanica gegn Ítalíu og Gambelli gegn Ítalíu). Á móti kemur að viðurkenndur er ákveðinn réttur aðildarríkjanna til þess að setja reglur á þessu sviði og binda slíka starfsemi leyfum. Vegna lögsögumála er erfiðara að ná utan um og afmarka ábyrgð þeirra sem halda úti vefsíðum þar sem hægt er að spila fjárhættuspil. Væri slíkur vefur hýstur á Íslandi gæti rekstur hans hins vegar fallið undir orðalag 183. gr. um að koma öðrum til þátttöku í fjárhættuspilum. Happdrætti, getraunir og söfnunarkassar Unnt er að freista gæfunnar í spilum og veðmálum á marga vegu og það er ekki auðvelt að afmarka nákvæmlega hvenær leikir, happdrætti eða spil verða að fjárhættuspilum. Ýmis konar starfsemi er rekin hér á landi þar sem unnt er að leggja undir fé og reyna að ramba á ákveðna niðurstöðu. Í gildi eru lög um happdrætti, lög um Happdrætti Háskóla Íslands, lög um getraunir og talnagetraunir og lög um söfnunarkassa, svo dæmi sé tekið. Alþingi hefur því farið þá leið að setja spilum og leikjum af þessu tagi þröngan stakk og reyna að tryggja að ágóðinn af þeim renni til góðgerðarmála. Við veitingu leyfa til reksturs slíkrar starfsemi verður þó að gæta að reglum EES-samningsins um að óheimilt sé að mismuna eftir þjóðerni en dæmi eru um að reynt hafi á slíkt í dómum sem hafa gengið á þessu sviði hjá Evrópudómstólnum. Í skýrslu frá Evrópuráðinu (Council of the European Union) um lagaumhverfi fjárhættuspila og veðmála hjá aðildarríkjum ESB frá nóvember 2008, kemur fram að innan aðildarríkjanna sé reglum víðast hvar háttað þannig að ríki reyni að setja ákveðnar skorður við veðmálum, getraunum og happdrættum, til dæmis með því að skilyrða slíka starfsemi við leyfisveitingu. Skattlagning Ágóðinn af veðmálum og fjárhættuspilum er skattskyldur samkvæmt lögum um tekjuskatt. Þar segir í 4. tölulið a-liðar 7. gr. að undir skattskyldar tekjur falli „verðlaun og heiðurslaun, vinningar í happdrætti, veðmáli eða keppni.“ Aftur á móti kemur fram í þeim lögum sem gilda um happdrætti, getraunir og söfnunarkassa að vinningar séu undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Er hægt að spila í rúllettu í spilavíti og vera 99-100% öruggur um að græða? eftir Árna Richard Árnason
- Er spilafíkn á meðal íslenskra ungmenna? Hvar er best að finna rannsóknir um það? eftir Daníel Þór Ólason
- Af hverju heitir það 'að tippa' þegar við veðjum? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- UK Gambling Law
- 4 Online Gambling
- Spilahegðun og algengi spilavanda meðal fullorðinna Íslendinga árið 2007. Lögð fram júní 2008, dr. Daníel Þór Ólason, lektor við sálfræðideild HÍ.
- Gambling and betting: legal framework and policies in the Member States of the European Union. Presidency Progress Report. Brussel. November 2008.
- Guide online gambling.com. Sótt 23.6.2009
Ritstjórn þakkar Sigurði Baldurssyni fyrir gagnlegar ábendingar við þetta svar.