Á þriðja mánuði meðgöngu hefst myndun fyrsta stigs broddmjólkur, sem er þykkur gulleitur vökvi ríkur af næringarefnum og ónæmisþáttum. Þegar öðrum þriðjungi meðgöngu lýkur er brjóstið farið að mynda eiginlega broddmjólk, jafnvel strax eftir 16 vikur. Hjá sumum konum kemur svolítið af broddmjólk úr geirvörtunum og örlítið blóð getur fylgt, en það er eðlilegt og stafar aðeins af vaxandi fjölda og þroskun æða í gangakerfi brjóstanna. Á síðasta þriðjungi meðgöngunnar halda brjóstin áfram að stækka vegna stækkunar mjólkurmyndandi frumna og útþenslu þeirra vegna broddmjólkur sem safnast í þær. Broddmjólk kemur úr brjóstum fyrstu dagana eftir fæðingu en yfirleitt hefst framleiðsla á þroskaðri mjólk í kringum þriðja eða fjórða dag eftir fæðingu. Það er athyglisvert að mjólk móður sem fæðir barn fyrir tímann er svolítið öðruvísi samsett en mjólk frá móður fullburða barns. Efnasamsetningin hentar betur þörfum fyrirburans sem er með vanþroskaðra líffærakerfi. Hægt er að lesa meira um brjóstamjólk í svari sama höfundar við spurningunni Hvaða efni eru í móðurmjólk? Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Eru brjóst kynfæri eða eru þau bara til að gefa börnum mjólk?
- Hefur brjóstaminnkun áhrif á getuna til að hafa barn á brjósti?
- Hvernig þróuðust spenar á spendýrum?
- The Ohio State University Medical Center
- iVillage - Pregnancy & Parenting
- Imaginis - The Women's Health Resource
- Emedicine
Hér er einnig svarað spurningunni:
Er það rétt að móðir fyrirbura framleiðir sérstaka fyrirburamjólk ef að hún fæðir fyrir tímann?