Seinni möguleikinn er sá að við hefðum þróast á þann veg að við værum ekki með neinn heila og heldur ekki neitt taugakerfi. Ef þetta væri raunin mætti hugsa sér að við hefðum þróast á svipaðan hátt og til dæmis svampdýr, en þau eru einmitt bæði án heila og taugakerfis. Þeir sem hafa gaman að brjóta heilann um það hvernig lífið væri án heilans geta þess vegna reynt að ímynda sér hvernig það er að vera til dæmis krossfiskur eða svampdýr. Annars er kannski fróðlegt í þessu viðfangi að rifja upp steingervingafræði 19. aldar. Með iðnvæðingu og námagreftri voru menn þá sífellt að finna steingervinga, rannsaka þá og gera sér kerfisbundna og samhangandi mynd af þeim. Þeir vísindamenn sem þóttu færastir á þessu sviði gátu sér til dæmis frægð fyrir það að geta sagt til um útlit dýrsins í heild eftir að hafa séð og rannsakað til dæmis eitt bein. Þannig er samhengið í lífríkinu: Það getur verið erfitt að raska einu líffæri án þess að lífveran gerbreytist. Við bendum lesendum einnig á að lesa eftirfarandi svör til þess að átta sig betur á því hvernig allt væri öðruvísi ef það vantaði í okkur heilann:
- Hvernig fer heilinn í okkur að því að muna? eftir Jörgen Pind
- Er hægt að skilja sinn eigin heila? eftir Ólaf Pál Jónsson
- Hvernig starfar mannsheilinn? eftir Valtý Stefánsson Thors
- Hver er munurinn á heila karla og kvenna? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Talað er um að við notum lítið af heilanum, hvernig væru vitsmunir okkar ef við nýttum hann allan? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson