- Hvar lifa svampdýr? Hvað éta þau? (Jóna Lind)
- Hvað eru svampdýr, hver er tilgangur þeirra, hvaða þætti í vistkerfinu sinna þau, hvar lifa þau? (Elín Pálmadóttir)
- Calcispongiae, kalksvampar, með stoðgrind úr kalsíumkarbónati
- Hyalospongiae, með stoðgrind úr sílikoni og nokkrum öðrum frumefnum. Kunnar tegundir sem tilheyra þessum flokki eru glersvampar en stoðgrind þessara dýra minna á brothættar glernálar
- Demospongiae, flestar tegundir svampa tilheyra þessum hópi eða allt að 90% tegunda heimsins
Fæðunám svampdýra er ákaflega sérstakt, aðallega vegna þess að þau hafa ekki munn líkt og önnur fjölfruma dýr, enda er um enga sérhæfingu vefja að ræða hjá svampdýrum. Í reynd eru svampar síarar. Vatn streymir inn um ótal smá göt á hliðum dýrsins, sem nefnast ostia á fræðimáli. Inn í veggjum þessara gata eru svonefndar kragafrumur (e. choanocyte) sem eru alsettar tiltölulega löngum bifhárum. Þessar frumur veiða upp smásæjar fæðuagnir sem berast með vatnsstraumnum inn um götin með bifhárunum. Jafnframt örva kragafrumurnar vatnsstrauminn um göngin með þeim.
Smáu agnirnar sem svampurinn nýtir til fæðu er meðal annarra bakteríur og aðrar smásæjar lífverur, ásamt ýmsum lífrænum ögnum sem fljóta um í vatnsmassanum. Rannsóknir sem framkvæmdar voru með lituðum smáögnum, hafa sýnt fram á að eftir að kragafrumurnar hafa náð að veiða fæðuagnirnar, eru þær fluttar til annarra fruma sem nefnast á ensku thesocytes og miðla þær næringunni til annarra fruma svampdýrsins. Vatnsflæðikerfi svamdýra er misflókið. Einfaldast er það hjá upprunalegum hópi svampdýra af flokki kalksvampa. Götin eru í reynd frumur sem stjórna opnun og lokun innstreymisgatanna. Með því að framkvæma samdrætti og útvíkkun inn-streymisopanna, örvar svampdýrið flæði vatns inn um þau. Á einum degi getur svampdýrið því dælt nokkrum lítrum af sjó og vatni um opin og fengið talsvert magn af næringu sem kragafrumurnar fanga. Þetta kerfi er ákaflega árangursríkt, sérstaklega þar sem svamdýr hafa ekki samræmt taugakerfi til að stjórna starfseminni líkt og önnur fjölfruma dýr hafa. Svampdýr lifa í öllum höfum, frá grunnum strandsjó niður í hyldjúpa ála úthafanna (allt niður að 9.000 metra dýpi). Þeir finnast ennfremur í mörgum vötnum út um allan heim. Svampdýr eru að öllum líkindum elstu fjölfruma dýrin og með því að skoða lífeðlisfræði svampdýra má gera sér í hugarlund hvernig fjölfruma dýr komu fyrst fram í þróunarsögunni. Að mati flestra náttúrufræðinga hafa fyrstu fjölfruma dýrin verið einhvers konar sambýli heilkjarna fruma sem hafa haft með sér lauslegt verksvið. Í næstu köflum í þróunarsögunni hafi sérhæfing líkamsfrumanna aukist og vefir komið fram, sem er endanlegt stig frumusérhæfingarinnar (líkamsvefir, til dæmis taugakerfi og vöðvar). Elstu steingerðu leifar svampdýra eru frá forkambríumtímabilinu og eru sennilega tæp 600 milljón ára gamlar. Kannski eru frumstæðari stig fjölfrumunga, með svipað líkamsskipulag, jafnvel enn eldri. Heimildir og myndir:
- Barnes, R.D. 1987. Invertebrate zoology. 5th ed. Saunders College Publ. New York. USA.
- The Moonsnail Project
- Gippsland Coastal Board