Á sama hátt má sjá einingar úr öðrum kerfum í ýmsum löndum þar sem metrakerfið er hið opinbera kerfi mælieininga, en í mismiklum mæli. Bretland og Kanada eru dæmi um lönd þar sem metrakerfið er formlega í gildi en einingar úr engilsaxneska einingakerfinu (tommur, pund, og svo framvegis.) eru töluvert mikið notaðar, sérstaklega meðal almennings í daglegu lífi. Í Kanada er ekki óalgengt að fólk gefi upp hæð sína í fetum og tommum og þyngdina í pundum. Einnig er algengt að sjá verð á matvælum gefið upp miðað við pund en ekki kíló. Í Bretlandi er vökvi, svo sem mjólk og bjór gjarnan mældur í hálfpottum (e. pints), verð á mat gefið upp miðað við hvert pund, þyngd fólks í einingunni stone og hæð í fetum og tommum. Þetta eru aðeins örfá dæmi um það hvernig aðrar einingar en þær úr metrakerfinu eru notaðar. Þótt metrakerfið hafi formlega verið tekið upp á Íslandi árið 1907 þá sjáum við vissulega einingar úr öðrum kerfum hér. Til dæmis er stærð á pítsum, dekkjum (bæði bíla og reiðhjóla), hljómplötum og sjónvarps- og tölvuskjám, yfirleitt gefin upp í tommum. Í stangveiði er þyngd fisks gefin upp í pundum, þyngd á nýfæddum börnum hefur lengi verið gefin upp í mörkum og vegalengd á sjó er gefin upp í sjómílum. Meira um mælieiningar á Vísindavefnum:
- Hvað er einn hestur mörg hestöfl? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Er mælieiningin "mörk" um þyngd nýbura séríslensk, og hvaðan kemur orðið í þessari merkingu? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hvernig breytir maður lítra í bandarískt gallon? eftir EMB
- Hvað er "landfræðileg alin"? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvers vegna nota Bandaríkjamenn aðrar mælieiningar en Evrópubúar? eftir Guðmund Hálfdánarson
- U.S. Metric Association. Skoðað 20. 2. 2009.
- Wikipedia, skoðað 20. 2. 2009: