Rannsóknir hafa sýnt að miðtaugakerfið í músum og rottum sem eru verulega sýktar af umræddu sníkudýri, tekur einhverjum breytingum. Breytingarnar koma fram í atferli dýranna, til dæmis verða þau ekki eins tortryggin gagnvart framandi mat og þau eru óhræddari við opin svæði. Þetta eykur líkurnar á því að þau lendi í kjaftinum á rándýri sem í borgarumhverfi nútímans eru yfirleitt kettir. Þannig komast sníkjudýrin í tengsl við önnur sníkjudýr sömu tegundar og geta þannig æxlast. Það eykur erfðablöndun og minnkar hættu á innræktun sníkjudýranna. Læknar hafa lengi rannsakað áhrif bogfrymils á menn og vísbendingar eru um að breytingar verði á heilastarfsemi manna sem sýkjast. Til dæmis virðast sýktir einstaklingar finna fyrir óöryggi, viðbragðsflýtir þeirra verður minni og jafnvel ber á því að fólk verður íhaldssamara og tregara til að gera eða framkvæma nýja hluti. Að lokum er þó vert að taka fram að bogfrymilssótt er sjaldgæf á Íslandi og því er óþarfi að barnshafandi konur losi sig við ketti sína. Rétt er þó að vera á varðbergi fyrir sýkingareinkennum sem má lesa nánar um á vefslóðinni sem vísað er á hér fyrir neðan. Heimild og frekara lesefni: Meira lesefni á Vísindavefnum um sníkjudýr:
- Hvaða ormar lifa í meltingarvegi fólks á Íslandi? eftir Karl Skírnisson
- Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar? eftir Karl Skírnisson
- Hvað getur þú sagt mér um Giardia-sníkjudýrið sem fannst í vatninu í Osló?
- eftir Sigurð H. Richter og Ingibjörgu Hilmarsdóttur