Giardia duodenalis.
1) 1) Hreyfanleg form einfrumunganna mynda um sig þolhjúp (cyst) í þörmunum og berast þannig út í ytra umhverfi þar sem þeir bíða eftir að komast í hýsil. Hreyfanlegu formin (trophozoites) finnast líka í saur en lifa ekki af utan hýsilsins. 2) Smit verður með saurmenguðu vatni, fæðu eða með beinu saur-munn smiti. 3-4) Einfrumungarnir losna við þolhjúpinn í smáþörmunum, fjölga sér og leggjast á yfirborðsfrumur þarmanna. 5) Þeir mynda svo um sig þolhjúp og berast með saur út í umhverfið og hringrásin hefst að nýju.
Vel er gengið frá flestum vatnsbólum fyrir þéttbýli hér á landi, og ætti vatn í þeim ekki að geta mengast af manna- eða dýrasaur. Þó skal hafa í huga að ef vatnsból eru ekki nægilega vel vernduð fyrir dýrum, saurmenguðu yfirborðsvatni eða frárennsli er alltaf hætta á að sýklar úr meltingarvegi dýra og manna komist í neysluvatnið og geti valdið sýkingum. Rannsóknir á neysluvatni með tilliti til Giardia eru þungar í vöfum og hafa fram að þessu ekki verið framkvæmdar hér á landi. Af þeim sökum er ekki vitað hvort neysluvatn á Íslandi geti verið mengað af Giardia. Giardia er landlæg í mönnum og ýmsum dýrum á Íslandi, eins og annars staðar. Til skamms tíma hefur þó lítið verið vitað um tíðni og útbreiðslu Giardia hér á landi. Árið 2005 höfðu samtals greinst um 500 tilfelli af Giardia-sýkingum í mönnum á Íslandi frá árinu 1973. Áður fyrr var yfirleitt talið að fólk hefði smitast erlendis, en á undanförnum árum hefur komið í ljós að meira en helmingur sjúklinga hefur smitast hérlendis. Uppspretta hinna innlendu sýkinga er enn óþekkt, það er ekki er vitað hvort menn smitist með vatni og fæðu eða beint frá mönnum og dýrum. Ekki er ólíklegt að fleiri en ein uppspretta komi hér við sögu. Vitað er að Giardia er algeng í ýmsum spendýrategundum hérlendis en óvíst er hvort, eða hversu mikið, Giardia-stofnar þessara spendýra hér á landi eru smitandi fyrir menn. Enn hefur ekki verið rannsakað nægjanlega vel hvaða stofnar eða afbrigði eru í hinum ýmsu dýrategundum hérlendis. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað getið þið sagt mér um heilaétandi slímdýrið sem fannst í Flórída? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvaða ormar lifa í meltingarvegi fólks á Íslandi? eftir Karl Skírnisson
- Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar? eftir Karl Skírnisson
- Hvers konar dýr þrífast í ferskvatni? eftir Jón Má Halldórsson