Síðari liðurinn –ræður var einnig notaður til þess að mynda tölulýsingarorð sem á sama hátt og orð sem enda á –tugur segja til um aldur, hæð og dýpt. Talað er um áttræðan, níræðan og tíræðan mann ef viðkomandi er áttatíu, níutíu eða hundrað ára. Einnig er talað um áttrætt, nírætt, tírætt, tólfrætt dýpi og er þá átt við hversu margir faðmar það er. Viðliðurinn –ræður er skyldur viðliðnum -rað í hundrað. Ásgeir Blöndal Magnússon tengir viðliðinn gotnesku sögninni garaþjan ‘reikna, telja’ og kvenkynsorðinu raþjo ‘reikningur, tala’ (Íslensk orðsifjabók 1989:785). (Gotneska var austurgermanskt mál nú útdautt en nýtist afar vel til að skilja og skýra uppruna annarra germanskra mála.) Málvenja ræður því fyrst og fremst að –tugur er notað frá 20 til 70 um aldur manna en –ræður um 80 til 100. Aftur á móti er sagt: hann er á áttugasta aldursári, hún er á nítugasta aldursári, þau eru bæði á hundraðasta aldursári. Eftir 100 er talað um hundrað og tíu, hundrað og tuttugu og svo framvegis. Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:
Hvernig stendur á því (málfræðilega) að menn eru tvítugir, þrítugir ... sjötugir, en síðan áttræðir, níræðir og tíræðir? Hvað tekur svo við? Hvað merkir orðhlutinn -ræður í þessu sambandi?Mynd: