Að gefa fellibyljum nöfn er tiltölulega nýleg hefð í mannkynssögunni. Fyrstu dæmin um þessar nafngiftir eru frá Vestur-Indíum við upphaf 19. aldar, en þá voru fellibyljum gefin nöfn eftir þeim kaþólsku dýrðlingum sem voru kenndir við degina sem fellibylina bar upp á. Við lok 19. aldar tók veðurfræðingurinn Clement Lindley Wragge (1852-1922) upp á því að skíra fellibylji meðal annars eftir goðsagnaverum og stjórnmálamönnum; ef einhver stjórnmálamaður fór í taugarnar á honum þá gat hann lýst viðkomandi þannig í opinberum tilkynningum að hann ráfaði stefnulaust um Kyrrahafið og ylli eyðileggingu hvar sem hann kæmi. Á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar voru fellibyljir oft nefndir kvenmannsnöfnum, en nöfnin voru hins vegar ekki ákveðin fyrirfram. Árið 1953 varð breyting á þessu, en þá var ákveðið að gefa fellibyljum nöfn eftir ákveðnu kerfi. Það voru útbúnir nokkrir listar með mannanöfnum og fellibyljir fengu nöfn af þessum listum. Hver listi var endurnýttur á nokkurra ára fresti, en ef einhver fellibylur var sérstaklega stór eða olli talsverðu eignatjóni var hann látinn halda nafninu sínu og nýtt nafn tók stað þess gamla á listanum sem var þá ekki notað aftur. Í dag er grunnhugmyndin í þessu kerfi að mestu enn við lýði en nafnalistarnir eru mismargir og breytilegir eftir svæðum. Eins og áður sagði voru öll nöfnin á þessum listum kvenmannsnöfn í upphafi. Árið 1978 var karlmannsnöfnum bætt við þannig að jafnvægi kæmist á og nú eru fellibyljum gefin karl- og kvenmannsnöfn til skiptis. Nokkrir af stærri fellibylunum á Atlantshafinu síðustu ár voru Dean, Felix, Katrina og Rita. Nöfn þeirra verða ekki notuð aftur og önnur hafa verið fundin í þeirra stað. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvað er hríðarbylur? eftir Trausta Jónsson.
- Er vindur og rok það sama? eftir Vigni Má Lýðsson og Þorstein Vilhjálmsson.
- Hvað er hvirfilbylur og hvers vegna gerast þeir? eftir Harald Ólafsson.
- Vefsíða National Hurricane Center um nöfn fellibylja.
- Nöfn fellibylja á Wikipedia.
- Grein um nöfn fellibylja á vefsíðu Independent Traveler.
- Myndirnar voru fengnar af Wikipedia.