Sæskjaldbökur koma upp á land til þess að verpa og velja þá sendnar strendur. Sem dæmi um útbreiðslu og varpstaði má nefna að græna skjaldbakan (Chelonia mydas) verpir meðal annars víða í Suður- og Mið-Ameríku og á eyjum Karíbahafs, við norðurströnd Ástralíu og á eyjum bæði í Indlands- og Kyrrahafi. Leðurskjaldbakan (Dermochelys coriacea), sem er stærst allra núlifandi skjaldbaka, er algengust í Karíbahafi og þar er stærstu varpstaðina að finna. Hins vegar er leðurskjaldbakan mun betur aðlöguð köldu umhverfi en margar aðrar sæskjaldbökur og teygir útbreiðslu sína því bæði norðar og sunnar en margar aðrar tegundir. Sæskjaldbökur hafa einstaka sinnum sést hér við land. Sjálfsagt berast þær norður á bóginn með hafstraumum. Nýlegasta dæmið var þegar ein slík sást á sundi skammt frá Reykjanesi fyrir fáeinum árum. Þar var sennilega um leðurskjaldböku að ræða en ein slík fannst dauð á haustmánuðum árið 1963 í Steingrímsfirði á Ströndum.
Þess má geta að í gömlum annálum er sumstaðar sagt frá ókennilegum kvikindum sem komu röltandi frá sjó og skutu fólki eðlilega skelk í bringu. Í einstaka tilfellum töldu menn sig heyra einhvers konar skrölt frá þessum gestum og voru þau í framhaldi af því oft kölluð skeljaskrímsli, því hljóðin minntu á þegar skeljum er slegið saman. Það er mögulegt að þarna hafi verið um sæskjaldbökur að ræða þótt ekki sé fullyrt um það hér. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um skjaldbökur, til dæmis:
- Hvað getið þið sagt mér um sæskjaldbökur?
- Hvernig flokkast skjaldbökur?
- Getið þið sagt mér það helsta um skjaldbökur?
- Hve lengi lifir risaskjaldbakan?
- Af hverju eru skjaldbökur með skjöld?
- Kort: Wikipedia. Sótt 8. 10. 2008.
- Strandir.is. Sótt 8. 10. 2008.