Um 60% lands á Svalbarða er hulið ís allt árið um kring. Þrjár stærstu eyjur Svalbarða eru Spitsbergen (37.673km2), Norðausturlandið (14.443 km2) og Edgeeyja (5.074 km2. Árið 2005 bjuggu um 2.400 manns á Svalbarða, rúmur meirihluti þeirra Norðmenn en um 45% voru Rússar og Úkraínumenn. Námuvinnsla er helsti atvinnuvegurinn á Svalbarða en ferðaþjónusta, háskóla- og rannsóknarstarfsemi hafa verið vaxandi greinar undanfarna áratugi. Longyearbyen á vesturströnd Spitsbergen er langstærsti bærinn á Svalbarða með um 2.000 íbúa og er meirihluti þeirra norskur. Næststærsta byggðin er Barentsburg en þar búa um það bil 500 manns, flestir frá Rússlandi og Úkraínu. Tvö önnur þorp eru á Svalbarða, Sveagruva og Ny-Ålesund. Sveagruva er reyndar sérstakur staður að því leyti að þar er enginn með fasta búsetu þó venjulega séu þar um 300 manns að vinna í tengslum við námur sem þar eru. Þetta fólk býr í Longyearbyen en dvelur í Sveagruva kannski í viku í senn við vinnu. Ny-Ålesund er lítið þorp með 30-35 íbúa og nýtur þess heiðurs að vera nyrsta þéttbýli eða þorp á jörðinni eins og lesa má í svari við spurningunni Hvort er Punta Arenas í Chile eða Dunedin á Nýja-Sjálandi syðsta borg í heimi? Heimild og mynd:
- Svalbard á Wikipedia. Skoðað 4. 12. 2009.
- Mynd: W W Svalbard LandSat7 á Wikipedia. Texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins. Sótt 4. 12. 2009.