Nokkru sunnar en Punta Arenas er Ushuaia (54°48′ S, 68°18′ V) í Argentínu sem einnig hefur verið nefnd syðsta borg heims. Hvort Ushuaia, með sína rúmlega 50.000 íbúa, getur kallast borg eða ekki fer hins vegar alveg eftir því hvaða merking er lögð í hugtakið borg. Titillinn syðsti bær eða þorp jarðar fellur í skaut Puerto Toro (55°05′ S, 67°06′ V) í Chile en það er um 100 manna byggð á eyjunni Navarino. Við þetta má bæta að á Suðurskautslandinu eru rannsóknarstöðvar þar sem vísindamenn dvelja tímabundið. Hins vegar er þar ekki um fasta búsetu að ræða og því varla hægt að telja það með þegar skoða á syðstu varanlegu búsetu manna á jörðinni. Á norðurhveli jarðar ná meginlöndin mun lengra í átt að heimskautinu en á suðurhveli (að Suðurskautslandinu undanskildu) og að sama skapi er fasta búsetu að finna á mun hærri breiddargráðum þar.
Nyrsta borg á norðurhveli jarðar með yfir 50.000 íbúa er Norilsk í Síberíu (69°21′ N, 88°02′ A) og er það önnur stærsta borg norðan heimskautsbaug á eftir Murmansk (68°59′ N, 33°08′ A). Hammerfest (70°40′ N, 23°42′ A) í Noregi gerir kröfu um að kallast nyrsti bær (ýmist notað city eða town á ensku) jarðar og vísar þar til þess að bærinn er nyrsta byggð með yfir 5000 íbúa, en í Hammerfest búa rúmlega 9.000 manns. Litlu norðar í Noregi er þó Honningsvåg (70°58′, 25°59′ A), 2.500 manna bær í sveitafélaginu Nordkapp, sem einnig gerir tilkall til að kallast nyrsti bærinn. Bærinn Barrow í Alaska (um 4.500 íbúar), liggur hins vegar aðeins norðar en norsku bæirnir eða 71°17′ N, 156°47′ V.