Stofn serkjaapa á Gíbraltar telur aðeins rúmlega 200 dýr. Aparnir lifa í einhvers konar fjölskylduhópum líkt og aðrir makakíapar og eru hóparnir 6 talsins með 25-70 dýrum hver. Serkjaapar eru meðal stærstu tegunda ættkvíslar sinnar, geta orðið allt að 75 cm á lengd og vega allt að 15 kg. Karldýrið er mun stærra en kvendýrið. Ekki er alveg ljóst hver uppruni serkjaapanna á Gíbraltar er. Sumir vísindamenn telja að aparnir hafi fyrst borist til Íberíuskagans með Márum og hafi verið notaðir sem gæludýr. Aðrir telja hins vegar að aparnir séu síðustu leifar stofns sem var útbreiddur í suðurhluta Evrópu fyrir rúmum 5 milljón árum. Serkjaaparnir eru nátengdir ímynd Gíbraltar og eitt það helsta sem ferðamenn vilja sjá þar. Aparnir hafa lengi verið undir verndarvæng breska hersins, en Gíbraltar er bresk nýlenda. Til er þjóðsaga þess efnis að þegar síðasti apinn deyr munu breskum yfirráðum yfir Gíbraltarkletti ljúka. Sagt er að Winston Churchill hafi tekið þessa þjóðsögu mjög bókstaflega í seinni heimsstyrjöldinni, enda lét hann þá flytja yfir Gíbraltarsund fleiri apa til að styrkja staðbundna stofninn á klettinum þegar fækkað hafði mikið í honum og tvísýnt var um framtíð gíbraltarapanna. Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um apa, til dæmis:
- Hvað eru til margar apategundir í heiminum og hver þeirra er algengust og hver sjaldgæfust? eftir Margréti Björk Sigurðardóttur
- Hvers konar prímatar eru Rhesusapar? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvað geturðu sagt mér um þróun apa? eftir Jón Má Halldórsson
- Hversu þungur er apaheili? eftir Jón Má Halldórsson
- The Gibraltar Ornithological & Natural History Society. Skoðað 20. 8. 2008.
- BBC. Skoðað 19. 8. 2008.
- Encylopædia Britannica Online. Skoðað 19. 8. 2008.
- Mynd: Flickr. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.