Það er ekki neitt eitt svar við því hvað ungar hettumáva éta þar sem foreldrarnir bera í þá ýmiskonar fæðu sem er mjög breytileg eftir svæðum, árferði og aðstæðum. Ýmsar tegundir hryggleysingja eru þó algeng fæða, til dæmis ýmis skordýr, og hryggleysingar sem finnast í fjörum og leirum svo sem sniglar og burstaormar. Hettumávurinn er dæmi um fuglategund sem hefur aðlagast lífi með manninum mjög vel. Hér á landi sækir hann til dæmis í alls kyns matarúrgang sem skemmtanaglaðir höfuðborgarbúar skilja eftir á stéttum og torgum borgarinnar seint um nætur og sjálfsagt er þessi fæða einnig kærkomin í maga unganna. Hettumávar eiga það einnig til að ræna fæðu frá öðrum hettumávum. Slíkt fæðunám, sem vísindamenn kalla kleptoparasitsmi, er mjög breytilegt að umfangi eftir árferði en það er frekar algengt þegar fæðuskortur er. Hettumávar éta líka unga annarra fuglategunda. Reynsla hérlendis og erlendar rannsóknir benda til að þeir gæði sér á allt að tveggja vikna gömlum kríuungum. Fekari fróðleikur um máva á Vísindavefnum:
- Hafa alltaf verið svona margir máfar við tjörnina? eftir Gunnar Þór Hallgrímsson.
- Um hvaða mávategund er ort í ljóðinu um fuglinn í fjörunni? eftir Jón Má Halldórsson.
- Cantos, F., A. Alonso-Gomez, M. Delgado. 1994. Seasonal changes in fat and protein reserves of the black-headed gull, Larus ridibundus, in relation to migration. Comparative Biochemical Physiology, 108A (1): 117-122.
- Stienen, E., A. Brenninkmeijer. 1999. Keep the chicks moving: how Sandwich terns can minimize kleptoparasitism by black-headed gulls. Animal Behaviour, 57: 1135-1144.
- Mynd: Nature Conservation Imaging. Ljósmyndari: Jeremy Early. Sótt 15. 7. 2008.