Fuglinn í fjörunni„Fuglinn í fjörunni“ er gömul alþýðuvísa eða þula sem skáldkonan Theódóra Thoroddsen (1863-1954) notaði meðal annars í sinni ljóðagerð. Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvaða tegund er átt við í vísunni en heitið már er eitt af þeim nöfnum sem hvítmávurinn (Larus hyperboreus) hefur borið á undanförnum öldum hér á landi. Önnur nöfn sem notuð hafa verið um hann eru hvítfugl, grámávur og gulnefur, en það síðasttalda var bundið við Vestfirði. Ef rýnt er í vísuna um fuglinn í fjörunni, sem birt er efst í svarinu, kemur þó í ljós að sumt í lýsingu á fuglinum er aðeins á skjön við útlit hans. Til dæmis er bakið ekki svart heldur grátt og bringan hvít en ekki grá eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
hann heitir már.
Silkibleik er húfan hans
og gult undir hár.
Er sá fuglinn ekki smár,
bæði digur og fótahár,
á bakinu svartur, á bringunni grár.
Bröltir hann oft í snörunni,
fuglinn í fjörunni.
Um hvítmávinn er það annars að segja að hann er áberandi mávur og auðgreinanlegur frá öðrum stórmávum hér á landi með sitt hvítleita yfirbragð og gráu vængi. Heimkynni hans hér á landi eru aðallega við Breiðafjörð og Vestfirði. Hann telst vera næststærsti mávfuglinn í íslenskri fuglafánu, litlu minni en svartbakurinn (Larus maritimus), með 150 cm vænghaf og vegur á bilinu 1,3 til 1,6 kg. Líkt og aðrir mávfuglar étur hvítmávurinn nánast hvað sem er. Hann tínir ýmis dýr upp í fjörunni og við yfirborð sjávar, svo sem sandsíli, krækling, doppur og krabba. Ennfremur étur hann ýmsan úrgang úr fiskvinnslu. Hvítmávurinn á það til að vera afar illskeyttur í varplandi og ekki er óalgengt að hann ráðist á menn sem gerast of nærgöngulir við hreiður hans. Mynd: Svalbard Images Heimildir:
- Birkibeinar, 2. árgangur 1912, 3. tölublað - Timarit.is. (Sótt 6.09.2019).
- Hvítmáfur | Náttúruminjasafn Íslands. (Sótt 6.09.2019).
- Iðunn : nýr flokkur, 1. Árgangur 1915-1916, 4. Tölublað - Timarit.is. (Sótt 6.09.2019).