
Á íslensku vottar enn fyrir þessari hefð; nafnið sunnudagur er dregið af orðinu sunna, sem er gamalt orð yfir sólina, og mánudagur var áður mánadagur, eða dagur tunglsins. Eftir að Íslendingar tóku kristna trú var reynt að breyta daganöfnunum svo þau minntu ekki á heiðnu guðina. Það tókst, aðallega fyrir tilverknað Jóns biskups Ögmundssonar, og á 12. öld hlutu flestir dagarnir þau nöfn sem þau bera í dag. Vikan hófst á sunnudegi. Þannig varð gamli týsdagurinn, sem er þriðji dagur vikunnar, að þriðjudegi. Óðinsdagur, sem er í miðri viku, varð að miðvikudegi, þórsdagur er fimmti dagur vikunnar og fékk nafnið fimmtudagur. Áður fyrr hét föstudagurinn frjádagur, sem kemur sennilega frá annarri hvorri gyðjunni Freyju eða Frigg, en núverandi nafn hans vísar til föstuhalds í kaþólskum sið. Laugardagur er líka kallaður þváttadagur í gömlum heimildum, en þvotturinn er talinn hafa verið liður í helgihaldi forðum daga, og nafn dagsins vísar sennilega til þess. Þessi nafnabreyting tókst ekki alveg fullkomlega þó lítið hafi vantað upp á. Um tíma var sunnudagurinn kallaður drottinsdagur, eftir hinum kristna guði, en það nafn festist ekki í sessi. Því vísa nöfn sunnu- og mánudags ennþá til himintunglanna eins og í heiðnum sið. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaða mánaðanöfn voru notuð samkvæmt gamla íslenska tímatalinu og yfir hvaða tímabil náðu þau? eftir Terry Gunnell og Eyju Margréti Brynjarsdóttur.
- Af hverju eru bara tólf mánuðir í árinu? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Þorsteinn Sæmundsson. [Án ártals]. ,,Almanaksskýringar.'' Almanak Háskóla Íslands.
- Grein á Wikipedia um vikuna. Sótt þann 10.06.2008.
- Free digital photos
Upphaflega spurningin var:
Af hverju heitir laugardagur þessu nafni?