Hvað er karrí? Ég veit að gult karrí er kryddblanda en hvað með rautt og grænt karrí. Er til „karríplanta“?Eins og kunnugt er einkennist indversk matargerðarlist af bragðmiklum mat sem velt hefur verið upp úr ríkulegri kryddblöndu. Um er að ræða sósu úr jógúrti eða kókosmauki/-mjólk sem kryddum er bætt við. Þessi sósa er sá hluti matarins sem Indverjar kalla karrí. Orðið á líklega rætur að rekja til tungumáls Tamíla á Suður-Indlandi þar sem „kari“ þýðir einfaldlega sósa. Á tímum breskra yfirráða frá átjándu öld og fram á þá tuttugustu þróaðist notkun hugtaksins í meðförum nýlenduherranna á þann veg að allir réttir gerðir með kryddsósu voru einu nafni kallaðir karríréttir eða „Indian curry“. Eflaust áttu þeir bágt með að greina í sundur hina ólíku þætti indverskrar matargerðar og gáfu allri matseldinni fyrir vikið nafn kryddsósunnar sem er svo áberandi þáttur í indverskum mat. Það má þó einnig leiða að því líkur að karríhugtakið, eins og Bretar nota það, geti verið undir áhrifum frá aldagömlu ensku orði sem finna má á titli fyrstu ensku matreiðslubókarinnar frá 1390 The Forme of Cury. Þar er orðið „cury“ skylt hugtakinu „cuisine“ eða matseld. Þetta er vísbending um að Breta kunni að hafa notað karríhugtakið markvisst yfir alla indverska matargerð fremur en fyrir misskilning. Það breytir þó ekki því að karrí er í meðförum Indverja og Breta tvö skýrt aðgreind hugtök: Indverjar nota orðið yfir sósu, sem einn lið af mörgum í matargerðinni, en Bretar nota það um indverska rétti og uppskriftir sem innihalda kryddblöndur. Indland er ákaflega auðugt af kryddtegundum og því eru nær ótæmandi möguleikar á samsetningu kryddsósa. Meðal helstu kryddtegunda í indverskri matseld má nefna túrmerik, broddkúmen (e. cumin), kóríanderfræ, chili-pipar, fenugreek, negul, kanil, mustarðsfræ og engifer (styrkur blöndunnar fer að mestu leyti eftir chili-magni).
Indverjar nota kryddið ferskt og láta það helst blandast í réttinum sjálfum. Stundum kallar matseldin þó á tilbúna kryddblöndu og þá er hún annað hvort búin til heima við eða keypt fersk á markaðnum þar sem hún er blönduð á staðnum. Hugtakið sem Indverjar nota yfir kryddblöndur er „masala“ og vinsælustu kryddblöndurnar heita nöfnum eins og „garam masala“ og „tandoori masala“. Hugtakið karrí finnst hins vegar ekki á indverskum kryddmarkaði, hvorki sem tiltekin kryddblanda né sem almennt hugtak yfir kryddblöndur. Karrí var ekki notað sem nafn á kryddblöndu fyrr en á nýlendutímanum. Bretar á Indlandi heilluðust mjög af indverskri matseld og til þess að færa þessa margslungnu matargerð heim í eldhús Vesturlandabúa bjuggu þeir til einfalda allsherjar kryddblöndu sem þeir nefndu karrí. Hún samsvaraði ekki neinni þekktri indverskri kryddblöndu heldur átti að vera einhvers konar samnefnari þeirra allra. Kryddblandan var í senn auðveld í notkun og framandi og náði því hratt fótfestu í hinum vestræna heimi. Snemma á nítjándu öld er talið víst að hún hafi verið orðin algeng markaðsvara bæði í Englandi og Frakklandi. Þar sem karrí er blanda ýmissa kryddtegunda er ljóst að hægt er að hnika henni til á ýmsa vegu. Upphaflega voru tilbrigði hennar tiltölulega fá í ljósi þess að henni var ætlað að ná utan um indverska matseld í heild sinni. Með aukinni eftirspurn og stækkandi markaði reyndu framleiðendur að endurspegla betur fjölbreytileika indverskrar matseldar og tóku að þróa ýmsar ólíkar kryddblöndur til þess að líkja eftir matseld ákveðinna héraða landsins. Andstæður í kryddlandslagi Indlands eru miklar. Til dæmis er tiltölulega mild kryddhefð ríkjandi í norðurhluta landsins og einkennist hún af blæbrigðaríkri blöndun kryddtegunda sem gjarnan eru mildaðar með jógúrti. Í suðurhlutanum er aðaláherslan hins vegar lögð á kryddstyrk fremur en fjölbreyttan keim. Chili-piparinn barst einmitt til landsins í gegnum suðurhlutann með portúgölskum sæförum og náði því mun meiri fótfestu í menningu þess svæðis en í norðurhéruðunum. Á Vesturlöndum er kryddsterk matseld suðursins oftast kennd við höfuðborg Tamíla, Madras, og á það bæði við um karríblöndur og bragðsterkar uppskriftir á veitingahúsum.
Madras karríblanda.
Karrílaufstré eða karrítré (Murraya koenigii).
- Haraldur Teitsson. Kryddbókin: Upplýsingar um kryddjurtir og náttúruleg bragðefni. Reykjavík, Pottagaldrar ehf. 2002.
- Nanna Rögnvaldsdóttir. „Logsterkt, eða létt og milt – ilmandi karríréttir úr ýmsum áttum“. Gestgjafinn 2. tbl. 2005.
- Nanna Rögnvaldardóttir. Matarást: Alfræðibók um mat og matargerð. Reykjavík, Iðunn. 2002.
- Þráinn Lárusson. Krydd: Uppruni, saga og notkun. Reykjavík, Mál og menning. 2000.
- Henriette's Herbal Homepage
- Asia Food
- Gernot Katzer's Spice Pages
- House Foods
- 4Reference.net
- Wikipedia.org
- The Forme of Cury
- Peter & Colleen Grove: Curry, spice & all things nice
- Cal's Plant of the Week
- Steenbergs Organic Pepper & Spice
- Japics Photographic