Gyðjan Ishtar eða Inanna eins og Súmerar nefndu hana. Hún þekkist einnig undir nöfnunum Ashtart, Anunit, Astarte, og Atarsamain. Tvíburabróðir hennar var Utu.
Hugmyndir þjóða um guði og heimsmyndir í Mið-Austurlöndum virðast mjög samofnar. Sagnir um örkina hans Nóa og syndaflóðið eru til hjá Súmerum og sömleiðis eru sagnir af för gyðjunnar Inanna í undirheima líkar sögunni af hinni grísku Persefón. Semitísku þjóðflokkarnir sem náðu yfirráðum á svæðinu síðar meir virðast hafa dýrkað súmerísku guðina. Þeir hafa látið duga að endurskíra þá súmerískum nöfnum en leyft þeim að halda upprunalegu hlutverki sínu. Þetta kann að stafa að hluta til af því að trúarbrögðin hafi verið orðin blönduð að einhverju leyti áður en veldi Súmera hrynur eða jafnvel að trú Súmera hafi sótt mikið til trúarbragða semíta áður fyrr. Því eru trúarbrögð Súmera samofin trúarbrögðum þeirra þjóðflokka sem síðar koma. Þetta er í raun frjó samsuða fjölgyðistrúarbragða sem lifa hlið við hlið í mörg árhundruð líkt og gerist í Egyptalandi. Það hefur því gert fræðimönnum erfitt að tileinka einhverjum einum guði ákveðið hlutverk. Trúarbrögð voru samofin stjórnun ríkisins og hvert borgríki hafði sína staðbundnu guði. Í safni Assurbanipals er getið yfir 2000 guða en lítið sem ekkert er vitað um þá flesta. Hafi þeir verið til er liklegt að langflestir hafi einungis haft smáhlutverk í mýtum og heimsmynd Súmera. Hammurabi, konungur Amoríta, sem var uppi um 1700 f.Kr. nefnir til að mynda einungis um tuttugu guði. Eftirfarandi þrír guðir virðast þó hafa haft sérstöðu og ráðið yfir umsvifameiri fyrirbrigðum:
- An var himinguð og fræðilega séð æðsti guðinn en En-lil tók yfir þá tignarstöðu. An sá um tímann og árstíðirnar.
- En-lil var sennilega guð lofts, vinda og akuryrkju. Elstu heimildir geta hans og hann oft álitinn æðsti guð Súmera. Hann veitir konungum mátt sinn og refsar þeim sem brjóta gegn boðum hans.
- Enki ríkti yfir uppsprettum og ám. Hann var vitrasti guðinn og leysti oft vandamál hinna.
- Nann Ana sem var tunglguð og sonur En-lils og dýrkaðist sérstaklega í borginni Ur.
- Utu var sólguð. Vísað er til hans sem mikils kappa í hernaði og dýrkaður sem herra réttvísinnar.
- Dumu-zi var hetja og verndari hjarðarinnar fyrir villtum dýrum. Verður síðar alhliða frjósemisguð.
- Inanna var gyðja himins og frjósemi. Hún var líka stríðsgyðja sem veitti sigur í bardaga. Margar sagnir greina frá því að hún hafi tælt Dumu-zi og seinna sent hann til ríkis dauðra sér til bjargar.
- Ninurta var sonur En-lils. Hann var guð þrumuveðurs, plógsins og flóða.
- Fyrir hvað eru Súmerar þekktir? eftir Harald Ólafsson.
- Súmerar fundu upp hjólið en hvenær var það? eftir Sævar Helga Bragason og Þorstein Vilhjálmsson.
- „Ishtar“: sótt 22. febrúar 2005 af vefsetrinu Wikipedia
- „Sumerian religion“: sótt 22. febrúar 2005 af vefsetrinu Wikipedia
- „Mesopotamian religion“: sótt 22. febrúar 2005 af vefsetrinu Encyclopædia Britannica Online
- Ringgren, Helmer: „Sumererna och ackaderna.” Religionerna i historia och nutid. Ringgren, Helmer og Ström, Åke. 9. upplag, 2. prentun. (Svíþjóð 1986).