Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stjörnumerkið sem minnir á gleitt "W" eða "M" á himninum heitir Kassíópeia. Í grískri goðafræði var Kassíópeia kona Sefeusar og móðir Andrómedu. Kassíópeia þótti falleg og montin og hafði lofað dóttur sinni að hún fengi að giftast Perseusi en fékk bakþanka. Hún sannfærði Agenor, son Póseidons, um að trufla brúðkaupið og krefjast Andrómedu sjálfur. Agenor mætti í veisluna með herskara sína og í kjölfarið braust út mikil orrusta.
Sagt er að í orrustunni hafi Kassíópeia öskrað: "Perseus verður að deyja". Perseus hafði skömmu áður banað Medúsu og veifaði höfðinu í brúðkaupsveislunni. Með hjálp höfuðsins breytti hann öllum gestunum í stein, þar á meðal Sefeusi og Kassíópeiu. Póseidon iðraðist mjög og setti bæði Sefeus og Kassíópeiu á himinninn. Vegna hégómagirndar Kassíópeiu setti hann hana á stól sem snýst umhverfis Pólstjörnuna, þannig að hálft árið situr hún öfug í sæti sínu og er oft lýst sem "hefðarkonunni í stólnum."
Stjörnur Kassíópeiu
Stjörnumerkið er pólhverft hér á landi sem þýðir að við sjáum það aldrei setjast. Þó er best að skoða það frá ágúst og fram í mars. Fimm stjörnur mynda W-ið en með berum augum má greina 51 stjörnu í merkinu. Ágæt regla til að muna röð björtustu stjarnanna er "BAGDE". Þetta eru fyrstu stafirnir í grískum heitum þeirra frá austri til vesturs, b (beta) Cassiopeia, þá a (alfa), g (gamma), d (delta) og e (epsilon), en gríska stafrófsröðin lýsir birtustigi, þannig að alfa er björtust en epsilon daufust af þessum fimm.
Bjartasta stjarna merkisins, a (alfa) Cassiopeia, heitir Schedar sem er arabíska orðið fyrir "brjóst" og lýsir það staðsetningu stjörnunnar við hjarta drottningarinnar. Schedar er óregluleg breytistjarna sem veldur því að stundum er hún ekki bjartasta stjarna merkisins. Schedar er appelsínugulur risi í 120 ljósára fjarlægð. Með handsjónauka má greina fölhvíta stjörnu við hlið Schedar, en þarna er um sýndartvístirni að ræða.
Önnur áhugaverð stjarna í Kassíópeiu er tvístirnið Achird eða e (eta) Cassiopeiae. Nafnið á henni hefur enga augljósa merkingu svo yfirleitt er talað um gríska heitið eta. Stjarnan er í um 19 ljósára fjarlægð og við nánari skoðun kemur í ljós að hún er ansi lík sólinni okkar. Í sjónauka sést að eta er afar fallegt tvístirni en minni stjarnan er ljósleit.
Við austurenda merkisins er j (jóta) Cassiopeiae, mjög fallegt fjölstirni í 140 ljósára fjarlægð. Með stjörnusjónauka við góð skilyrði sjást þrjár stjörnur, ein hvít, önnur gul og sú þriðja blá. Á innrauðu myndinni hér fyrir neðan, sem tekin var með Lick-stjörnusjónaukanum í Bandaríkjunum, sjást stjörnurnar þrjár. Jóta-A er björtust en þar rétt fyrir ofan vinstra megin er jóta-Aa sem snýst um jóta-A á 47 árum.
Áhugaverð djúpfyrirbæri í Kassíópeiu
Vetrarbrautarslæðan liggur í gegnum Kassíópeiu svo í henni er að finna fjölda áhugaverðra djúpfyrirbæra. Ein þeirra heitir M52. Hún er falleg, þétt lausþyrping 200 stjarna sem stundum er kölluð Salt og pipar. M52 er í 5000 ljósára fjarlægð og nær yfir 19 ljósára breitt svæði. Auðvelt er að greina hana með handsjónauka.
Skammt suðvestan M52 er sérkennileg þoka sem nefnd er Bóluþokan eða NGC 7635. Hún er stór en erfitt er að greina hana vegna þess hve dauf hún er.
M103 er falleg, þétt þríhyrningslaga lausþyrping um 40 stjarna. Hún sést með handsjónauka.
Önnur falleg lausþyrping nærri M103 er NGC 663. Hún samanstendur af 10-12 björtum stjörnum og um 50 daufari. Þyrpingin sést með handsjónauka.
NGC 457 er lausþyrping úr 75-100 stjörnum. Lögunin minnir á uglu með útbreidda vængi og tvístirnið fí Cassiopeiae myndar augun. Þyrpingin sést auðveldlega með handsjónauka.
NGC 7789 er um 1,6 milljarða ára gömul lausþyrping í 8000 ljósára fjarlægð. Í henni eru meira en 1000 stjörnur sem hafa myndast á svipuðum tíma en þær bjartari og massameiri hafa brennt vetnisforðanum hraðar. Hún er stórglæsileg í stjörnusjónauka og sést í handsjónauka.
Heimildir og myndir:
Snævarr Guðmundsson. 2004. Íslenskur stjörnuatlas. Mál og menning, Reykjavík.
Sævar Helgi Bragason. „Hvað heitir stjörnumerkið sem er eins og W í laginu?“ Vísindavefurinn, 18. febrúar 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4762.
Sævar Helgi Bragason. (2005, 18. febrúar). Hvað heitir stjörnumerkið sem er eins og W í laginu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4762
Sævar Helgi Bragason. „Hvað heitir stjörnumerkið sem er eins og W í laginu?“ Vísindavefurinn. 18. feb. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4762>.