Blálilja og fjöruarfi í Surtsey.
Algengustu háplönturnar sem vaxa við ströndina eru tegundir eins og fjöruarfi (Honckenya peploides), blálilja (Mertensia maritima) og hrímblaðka (Atriplex glabriuscula). Aðrar tegundir eru staðbundnari eins og sæhvönn (Ligusticum scoticum) og fjörukál (Cakile arctica) sem vex einkum sunnan- og vestanlands. Þó melgresi (Leymus arenarius) sé ekki bundið við strandsvæði setur það einnig sterkan svip víða við strendur landsins og þá sérstaklega sunnanlands. Nokkrar tegundir plantna hafa aðlagast vel þeim erfiðu aðstæðum sem ríkja á klöppum og hömrum við sjávarsíðuna. Það má sérstaklega nefna sjávarfitjung (Puccinellia maritima), kattartungu (Plantago maritima) og skarfakál (Cochlearia officinalis) en burnirót (Rhodiola rosea) og ætihvönn (Angelica archangelica) eru einnig nokkuð algengar, auk nokkurra annarra tegunda.
Sumar plöntur vaxa neðst í fjöru og má þá segja að þær lifi á mörkum lands og sjávar. Þar eru grænþörungar algengir en í klapparfjörum eru brúnþörungar ríkjandi og þá sérstaklega bóluþang (Fucus vesiculosus) og skúfaþang (Fucus distichus). Við ákveðnar aðstæður þar sem sjór flæðir yfir á flóði skapast afar merkilegt og fallegt gróðursamfélag. Þetta er samfeldur gróður háplantna og eru þar ríkjandi tegundir á borð við sjávarfitjung, skriðlíngresi (Agrostis stolonifera), heigulstör (Carex glareosa) og flæðastör (Carex supspathacea). Innan um þessar plöntur má einnig finna fáeinar tegundir tvíkimblöðunga svo sem kattartungu, strandsauðlauk (Triglochin maritimum) og lágarfa (Stellaria humifusa). Marhálmur (Zostera marina) hefur nokkra sérstöðu meðal íslenskra háplantna en hann er eina tegundin hér á landi sem vex neðan flæðamáls. Hann er afar algengur við Breiðafjörð og Faxaflóa og mikilvæg fæða fyrir álft (Cygnus cygnus) og margæs (Branta bernicla). Myndir:
- Mynd af blálilju og fjöruarfa fengin af Heimasíðu Surtseyjarfélagsins. Ljósmyndari Sigmar Metúsalemsson. Birt með góðfúslegu leyfi.
- Mynd af melgresi og hvönn. Ljósmyndari Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir.