Karldýrið kemur sæðinu ekki beint í kynop kvendýrsins heldur notar hann dansinn til að finna heppilegan stað til að láta frá sér sæðissekkinn og leiðir kvendýrið svo yfir sekkinn. Þegar hún er komin yfir sæðissekkinn þá virkjast sæðið og berst upp í kynop hennar og frjóvgun verður. Annað merkilegt við æxlunaratferli sporðdreka er klóskærakossinn en í sumum tilfellum bítur karlinn létt einhvers staðar í frambol kvendýrsins og skilur eftir lítið magn af eitri. Náttúrufræðingar telja að með þessu sé hann að deyfa kvendýrið og draga þannig úr árásarhneigð hennar og minnka líkurnar á því að hann verði drepinn. Að æxlun lokinni kemur karldýrið sér strax í burtu, sennilega til að forðast að vera étinn en sjálfsafrán er þekkt meðal sporðdreka þótt það sé ekki algilt. Æxlunarferlið er mislangt eftir tegundum og aðstæðum, frá einni klukkustund og upp í meira en sólahring. Stundum finnur karlinn ekki strax heppilegan stað til að leggja sáðsekkinn og getur þá teygst verulega á dansi kynjanna. Tíminn frá frjóvgun og til “fæðingar” , eða þegar kvikar smávaxnar eftirmyndir fullorðna dýra skríða úr kynopi móðurinnar er einnig háður tegundum.
Eftir að ungviðið kemur í heiminn kemur það sér strax fyrir á baki móðurinnar og heldur sig þar í einhverja daga eða vikur, þar til kemur að fyrstu hamskiptum. Hægt er að lesa meira um sporðdreka í svörum sama höfundar við spurningunum: Myndir:
- Mökunardans: John Bokma. Sótt 20. 5. 2008.
- Kvendýr með afkvæmi á baki: California Biota Website. Sótt 20. 5. 2008.