Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sporðdrekar tilheyra ættbálki Scorpionida sem er hluti af flokki áttfætlna (Arachnida) sem aftur teljast til fylkingar liðfætlna (Arthropoda) eins og lesa má um í svari sama höfundar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um áttfætlur? Alls eru þekktar um 700 tegundir núlifandi sporðdreka.
Sporðdrekar finnast í öllum heimsálfum nema á Suðurskautslandinu. Upprunalega tilheyra þeir ekki dýralífi Ástralíu, Nýja-Sjálands og Bretlands en bárust þangað með hjálp manna og hafa dafnað vel. Heimkynni sporðdreka eru fjölbreytt, allt frá regnskógum til snævi þakinna fjalla, eyðimarka og hella djúpt undir yfirborði jarða.
Þéttleiki og lífmassi sporðdreka getur orðið mjög mikill á sumum svæðum. Sem dæmi má nefna „Baja California“ í Mexíkó þar sem þéttleikinn getur orðið allt að einn sporðdreki á hvern fermetra. Samanlagður lífmassi sporðdreka á mörgum eyðimerkursvæðum er meiri en allra annarra dýra á viðkomandi svæði (fyrir utan maura og termíta).
Mikil útbreiðsla sporðdreka stafar meðal annars af því að þeir eru þurfa litla fæðu, hafa geysilega aðlögunarhæfni og geta lifað við mjög erfið skilyrði. Sumar tegundir geta tórað vikum saman við frostmark en náð eðlilegum líkamshita á nokkrum klukkutímum. Aðrar tegundir lifa á heitustu eyðimerkursvæðum þar sem hitinn er allt að 45-47°C en það er nokkrum gráðum heitara en aðrar eyðimerkurliðfætlur þola. Einnig eru dæmi um að sama tegundin geti lifað við margbreytilegar aðstæður svo sem evrópska tegundin Euscorpius carpathicus sem hefur fundist í hellum og ofan jarðar, bæði á ræktarlandi og á vel grónum skógarsvæðum.
Evrópska tegundin Euscorpius carpathicus getur lifað við margbreytilegar aðstæður. Hún hefur fundist í hellum og ofan jarðar, bæði á ræktarlandi og á vel grónum skógarsvæðum.
Helstu líkamseinkenni sporðdreka eru ílangur líkami með hala sem sveigist upp og á enda hans er broddur sem inniheldur öflugt eitur. Önnur einkenni eru þau að fyrsti gangliður er ummyndaður með gripklær líkt og hjá kröbbum. Eyðimerkurtegundir eru gulbrúnar að lit og falla vel að sendnum heimkynnum sínum en fjölmargar tegundir sporðdreka sem lifa í skóglendi eru grænar eða svartar að lit.
Sporðdrekar eru tiltölulega stórir í samanburði við aðrar liðfætlur. Þeir eru að meðaltali um 6 cm á lengd og aðeins stærstu köngulær, margfætlur og skordýr komast með tærnar þar sem sporðdrekar hafa hælana. Sporðdrekategundin Pandinus imperator er stærsti landhryggleysingi heimsins í dag. Einstaklingar þessarar tegundar, sem finnst aðallega í þéttum regnskógum Afríkuríkisins Gíneu, geta orðið allt að 20 cm á lengd og vegið um 30 grömm.
Í árdaga voru þó til mun stærri sporðdrekar, meðal annars tegundir á borð við Gigantoscorpio willsi og Brontoscorpio anglicus sem gátu orðið geysistórar, hugsanlega meira en metri á lengd. Minnstu sporðdrekarnir eru hins vegar aðeins um 12 mm langir og tilheyra tegundinni Microtityus fundorai sem finnst meðal annars á eyjum við Karíbahafið. Flestar tegundir eru þó nærri meðallengdinni, 6 cm.
Sporðdrekategundin Pandinus imperator er stærsti landhryggleysingi heimsins í dag.
Sporðdrekar eru afræningjar, það er að segja þeir éta önnur dýr. Þeir eru tækifærissinnar og éta allt sem þeir ráða við. Dýr eins og skordýr, jafnfætlur, sniglar, áttfætlur (meðal annars köngulær) og jafnvel smávaxin hryggdýr, svo sem nagdýr, eðlur og snákar, eru á matseðli sporðdreka. Veiðiaðferð þeirra byggist á því að bíða hreyfingalausir þangað til bráðin er komin svo nærri að þeir geta stungið hana og lamað með eitrinu úr eiturbroddinum.
Sporðdrekar eru líka mikilvæg fæða margra dýra enda eru þeir tiltölulega stórir og lifa þétt á mörgum svæðum. Uglur, eðlur og fjölmargar smáar snákategundir lifa á sporðdrekum og sömu sögu er að segja um nokkur spendýr, svo sem nagdýr og smáar rándýrategundir. Sumir sporðdrekar eru einnig duglegir við að veiða einstaklinga sömu tegundar auk þess sem þeir éta sporðdreka annarra tegunda.
Sporðdrekar geta varið sig með nokkrum ráðum. Þekktasta varnaraðferð þeirra er eiturbroddurinn aftast á dýrinu. Hann inniheldur öflugt taugaeitur sem getur dregið flest dýr til dauða. Sum dýr sem nærast á sporðdrekum hafa þó þróað með sér ónæmi gagnvart eitrinu. Ýmsir sporðdrekasérfræðingar telja að næturlíferni sporðdreka sé einnig vörn gegn afráni auk þess sem sporðdrekar reyni að vera sem minnst ofan jarðar og gefi þá síður færi á sér.
Sporðdrekar eru forsöguleg dýr og í meginatriðum hefur líkamsbygging þeirra ekkert breyst síðan þeir námu land á fornlífsöld. Samkvæmt steingervingasögunni komu sporðdrekar fram á sílúrtímabilinu fyrir um 430 milljónum ára og þeir hafa sennilega þróast frá hópi dýra sem nefnast á fræðimáli Eurypterida eða vatnasporðdrekar. Sporðdrekar fornlífsaldar og vatnasporðdrekar áttu ýmislegt sameiginlegt, svo sem utanáliggjandi bóktálkn, stór samsett augu, svipaða gerð ganglima á frambol og nokkur önnur smærri formfræðileg einkenni.
Það er ýmislegt sem styður það að fyrstu sporðdrekarnir hafi lifað í sjó eða vatni. Ganglimir sem aðlagaðir eru göngu á sjávarbotni benda til þess, sem og tálkn auk þess sem líkamsstærð þeirra var slík að þeir hljóta að hafa þurft að reiða sig á stuðning vatns. Hins vegar er sennilegt að fyrstu landsporðdrekarnir hafi komið fram fyrir 350-325 miljónum ára, eða á ofnaverðu devonskeiði jarðsögunnar. Þá færðust öndunarfærin inn í líkamann og urðu að bóklungum í stað utanáliggjandi bóktálkna sem er skýrt merki um aðlögun að lífi á landi.
Mikil tegundaútgeislun varð ármilljónirnar þar á eftir hjá sporðdrekum og fjölmargar ættir og þúsundir tegunda komu fram. Á því tímabili sem sporðdrekar voru að nema land höfðu aðrar liðfætlur komið sér vel fyrir á þurrlendinu. Skordýr (insecta), köngulær (arachnida) og margfætlur (myriapoda) höfðu þegar numið land og landnám sporðdreka var enn ein bylgja landnáms liðfætlanna.
Oft er deilt um flokkunarfræðilega stöðu sporðdreka. Almennt er álitið að sporðdrekar séu hópur innan fylkingar áttfætlna eins og köngulær. En aðrir fræðimenn hallast að því að sporðdrekar séu það fjarskyldir áttfætlum að þeir eigi ekki heima innan fylkingarinnar heldur séu þeir nútíma-þurrlendisdýr af hópi merostomata (sem er einn flokkur innan fylkingar liðfætlna). Kunnasta tegund þessa hóps er skeifukrabbar (Limulus).
Myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um sporðdreka?“ Vísindavefurinn, 12. maí 2004, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4249.
Jón Már Halldórsson. (2004, 12. maí). Hvað getið þið sagt mér um sporðdreka? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4249
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um sporðdreka?“ Vísindavefurinn. 12. maí. 2004. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4249>.