
Krabbamein er jafngamalt lifandi heimi. Jafnvel einfrumungar geta misst stjórn á erfðaefni sínu og breyst í krabbamein. Illkynja æxli eru vel þekkt í öllum æðri dýrum, þar með talið nánustu ættingjum okkar meðal spendýra. Elstu lýsingar á krabbameini í mönnum hafa fundist í egypskum sögnum frá þriðju öld fyrir Krist og beinkrabbamein hafa fundist í egypskum múmíum. Meirihluti krabbameina er læknanlegur, finnist æxlið nógu snemma. Þar ræður uppruni (lega) æxlisins í líkamanum, það er að segja hvort æxlið liggur nálægt líkamsyfirborði eins og til dæmis brjóstkrabbamein, og eins hversu snemma á vaxtarskeiðinu æxlið gefur einkenni, til dæmis blóð í hægðum. Krabbamein eru fyrst og fremst sjúkdómur mið- og síðari hluta mannsævinnar. Skýrir það hvers vegna krabbamein eiga nú á dögum stærri hlutdeild í veikindum og dánarorsökum en fyrr á öldum þegar meðalævilengd var styttri. Á Vísindavefnum er að finna fjölmörg önnur svör um krabbamein sem nálgast má með því að smella á efnisorðin hér fyrir neðan. Mynd: LifeForce Hospitals