Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær er talið að krabbamein hafi komið fram?

Jóhannes Björnsson

Krabbamein eru illkynja æxli sem átt geta upptök sín í því sem næst öllum vefjum og líffærum líkamans. Krabbamein er ekki einn sjúkdómur heldur flokkur fjöldamargra sjúkdóma sem hver fyrir sig er mismunandi bæði með tilliti til vaxtarhraða og getunnar til þess að valda dauða. Þannig eru til margar gerðir lungnakrabbameina, brjóstkrabbameina, magakrabbameina og svo framvegis. Einn eiginleiki er þó sameiginlegur öllum krabbameinum, það er að segja getan til þess að dreifast um líkamann frá því líffæri sem æxlið á upptök sín í. Þessi eiginleiki krabbameina skilur þau frá góðkynja æxlum, sem vaxið geta í viðkomandi líffæri, skemmt það og aðlægan vef en dreifast að öllu jöfnu ekki um líkamann.

Vaxtarhraði og hegðun krabbameina er mjög breytilegur innbyrðis, þar með talið innan sama líffæris. Ein krabbameinstegund í lungum hegðar sér þannig öðruvísi en önnur. Hvert einstakt krabbameinsæxli rekur toga sinn til einnar stofn- eða móðurfrumu sem breyst hefur þannig að erfðaefni hennar og stjórnkerfi hlýða ekki lengur lögmálum heilbrigðra fruma með tilliti til vaxtar frumunnar, ævilengdar hennar, hrörnunar og svo framvegis. Þótt æxli hafi dreifst um líkamann er talað um lungnakrabbamein, brjóstkrabbamein og svo framvegis, það er að segja mið er tekið af líffærinu eða vefnum, sem meinsemdin átti upptök sín í.



Krabbamein er jafngamalt lifandi heimi. Jafnvel einfrumungar geta misst stjórn á erfðaefni sínu og breyst í krabbamein. Illkynja æxli eru vel þekkt í öllum æðri dýrum, þar með talið nánustu ættingjum okkar meðal spendýra. Elstu lýsingar á krabbameini í mönnum hafa fundist í egypskum sögnum frá þriðju öld fyrir Krist og beinkrabbamein hafa fundist í egypskum múmíum.

Meirihluti krabbameina er læknanlegur, finnist æxlið nógu snemma. Þar ræður uppruni (lega) æxlisins í líkamanum, það er að segja hvort æxlið liggur nálægt líkamsyfirborði eins og til dæmis brjóstkrabbamein, og eins hversu snemma á vaxtarskeiðinu æxlið gefur einkenni, til dæmis blóð í hægðum. Krabbamein eru fyrst og fremst sjúkdómur mið- og síðari hluta mannsævinnar. Skýrir það hvers vegna krabbamein eiga nú á dögum stærri hlutdeild í veikindum og dánarorsökum en fyrr á öldum þegar meðalævilengd var styttri.

Á Vísindavefnum er að finna fjölmörg önnur svör um krabbamein sem nálgast má með því að smella á efnisorðin hér fyrir neðan.

Mynd: LifeForce Hospitals

Höfundur

prófessor við læknadeild HÍ, forstöðumaður Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði

Útgáfudagur

31.1.2005

Spyrjandi

Jóhanna Sigríður, f. 1990
Guðmundur Vilbergsson, f. 1992

Efnisorð

Tilvísun

Jóhannes Björnsson. „Hvenær er talið að krabbamein hafi komið fram?“ Vísindavefurinn, 31. janúar 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4734.

Jóhannes Björnsson. (2005, 31. janúar). Hvenær er talið að krabbamein hafi komið fram? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4734

Jóhannes Björnsson. „Hvenær er talið að krabbamein hafi komið fram?“ Vísindavefurinn. 31. jan. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4734>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær er talið að krabbamein hafi komið fram?
Krabbamein eru illkynja æxli sem átt geta upptök sín í því sem næst öllum vefjum og líffærum líkamans. Krabbamein er ekki einn sjúkdómur heldur flokkur fjöldamargra sjúkdóma sem hver fyrir sig er mismunandi bæði með tilliti til vaxtarhraða og getunnar til þess að valda dauða. Þannig eru til margar gerðir lungnakrabbameina, brjóstkrabbameina, magakrabbameina og svo framvegis. Einn eiginleiki er þó sameiginlegur öllum krabbameinum, það er að segja getan til þess að dreifast um líkamann frá því líffæri sem æxlið á upptök sín í. Þessi eiginleiki krabbameina skilur þau frá góðkynja æxlum, sem vaxið geta í viðkomandi líffæri, skemmt það og aðlægan vef en dreifast að öllu jöfnu ekki um líkamann.

Vaxtarhraði og hegðun krabbameina er mjög breytilegur innbyrðis, þar með talið innan sama líffæris. Ein krabbameinstegund í lungum hegðar sér þannig öðruvísi en önnur. Hvert einstakt krabbameinsæxli rekur toga sinn til einnar stofn- eða móðurfrumu sem breyst hefur þannig að erfðaefni hennar og stjórnkerfi hlýða ekki lengur lögmálum heilbrigðra fruma með tilliti til vaxtar frumunnar, ævilengdar hennar, hrörnunar og svo framvegis. Þótt æxli hafi dreifst um líkamann er talað um lungnakrabbamein, brjóstkrabbamein og svo framvegis, það er að segja mið er tekið af líffærinu eða vefnum, sem meinsemdin átti upptök sín í.



Krabbamein er jafngamalt lifandi heimi. Jafnvel einfrumungar geta misst stjórn á erfðaefni sínu og breyst í krabbamein. Illkynja æxli eru vel þekkt í öllum æðri dýrum, þar með talið nánustu ættingjum okkar meðal spendýra. Elstu lýsingar á krabbameini í mönnum hafa fundist í egypskum sögnum frá þriðju öld fyrir Krist og beinkrabbamein hafa fundist í egypskum múmíum.

Meirihluti krabbameina er læknanlegur, finnist æxlið nógu snemma. Þar ræður uppruni (lega) æxlisins í líkamanum, það er að segja hvort æxlið liggur nálægt líkamsyfirborði eins og til dæmis brjóstkrabbamein, og eins hversu snemma á vaxtarskeiðinu æxlið gefur einkenni, til dæmis blóð í hægðum. Krabbamein eru fyrst og fremst sjúkdómur mið- og síðari hluta mannsævinnar. Skýrir það hvers vegna krabbamein eiga nú á dögum stærri hlutdeild í veikindum og dánarorsökum en fyrr á öldum þegar meðalævilengd var styttri.

Á Vísindavefnum er að finna fjölmörg önnur svör um krabbamein sem nálgast má með því að smella á efnisorðin hér fyrir neðan.

Mynd: LifeForce Hospitals ...