- Hvað er maður lengi að rotna eftir að hann er grafinn?
- Hvernig rotna menn, það er hvernig er rotnunarferlið?
- Af hverju rotna manna- og dýralíkamar eftir dauðann?
- Hvaðan koma rotverurnar (litlu hvítu ormarnir) sem éta lífverur eftir að þær deyja?
Þegar dauðann ber að stöðvast efnahvörf í frumum líkamans. Efnakljúfum líkamsfrumna er haldið í skefjum til þess að starfa skipulega í örsmáum bólum í frymi lifandi frumna en þegar lífið slokknar losna þessi efni úr læðingi og taka að brjóta frumurnar niður. Rotnun vegna gerla
Gerlar sem eiga sér bústað í manninum taka að fjölga sér strax eftir andlátið. Byrjar sú starfsemi í þörmum þannig að gerlarnir dreifa sér frá innyflum eftir æðum sem þeir nota sem brautir til þess að fara um allan líkamann. Gerlarnir framleiða efni sem brjóta niður vefi og má greina það á niðurbroti blóðs, sem veldur grænleitri upplitun. Á öðrum degi eftir andlát sést því grænleit slikja á kviðvegg látins manns. Samtímis því að brjóta niður vefi mynda gerlarnir loft. Þeir eru hitakærir og því verður niðurbrot örara ef lík er í heitu umhverfi eftir andlátið en sé líkaminn kældur niður hægist öll starfsemi gerla og þar með niðurbrot vefja. Við niðurbrotið koma fram daunillar lofttegundir til dæmis brennisteinsvetni og er þá talað um nálykt. Þar sem lík liggur óvarið í röku og heitu umhverfi brotna mjúkvefir hratt niður, fyrst innyfli, þá heili, nýru, vöðvar, leg og blöðruhálskirtill en síðast bein og tennur. Ef skordýr ná að komast að líki stuðlar það að mun hraðara niðurbroti mjúkvefja. Verður það einkum ef maðkaflugur ná að verpa víum sínum í líkamsop eða sár að lirfur þeirra (maðkarnir) nærast á vefjum. Bein og tennur varðveitast mun lengur en mjúkvefir en smám saman verða harðir vefir einnig að dufti. Samkvæmt framanskráðu er ekki unnt að alhæfa um það hvenær líkami er orðinn að dufti eftir greftrun en líkami sem er djúpt í moldu án kistu getur verið 10-12 ár að brotna niður þar til beinagrindin ein er eftir. Í rökum, súrum jarðvegi getur kalkhluti beina og tanna tærst tiltölulega fljótt en svo sem kunnugt er finnast oft ævaforn bein, sem varðveist hafa í þurru umhverfi eða sterkum kistum. Afar heillegir líkamar manna, sem fundust í mómýrum á Jótlandi reyndust vera frá bronsöld og höfðu varðveist vel til okkar daga sökum þess að jarðvegurinn hafði að geyma sútunarsýru, sem sútað hefur hold þeirra sem þar voru grafnir. Sýran leysti hins vegar upp kalkið í beinum líkamans svo eftir var mjög vel varðveitt holdið. Þess má geta að í íslenskum lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu frá 1993 segir í 29. grein að grafir skuli friðaðar í 75 ár. Hægt er að lesa meira um rotnun á ýmsum síðum á netinu, til dæmis á: