Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða lagaheimild mælir fyrir að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum?

Árni Helgason

Sú regla að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum kemur hvergi fram í settu lagaákvæði. Regluna má leiða af þeirri viðurkenndu stjórnskipunarvenju að dómstólar skeri úr um hvort lög standist stjórnarskrá. Styðst þessi regla við mörg fordæmi dómstóla. Hæstiréttur hefur nokkrum sinnum dæmt lög andstæð stjórnarskrá, fyrst árið 1943 í svokölluðu Hrafnkötlumáli. Þá komst dómurinn að því að lög sem kváðu meðal annars á um einkarétt íslenska ríkisins til að gefa út rit samin fyrir árið 1400, voru talin brjóta gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Reglan um endurskoðunarvald dómstóla er auk þess varin af 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um hvernig breyta megi stjórnarskránni.2

Staða stjórnarskrárinnar er óumdeild og í raun væri óþarft að setja sérstakt ákvæði um stöðu hennar gagnvart öðrum lögum. Slíkt ákvæði myndi ekki breyta stöðu stjórnarskrárinnar lagalega, heldur aðeins staðfesta það sem menn vita nú þegar, að hún er æðri öðrum lögum.

Sett lög frá Alþingi verða að standast ákvæði stjórnarskrár og komist dómstólar að því að þau geri það ekki teljast lögin ekki gild réttarheimild. Þetta á við um öll ákvæði stjórnarskrárinnar en einkum reynir á þessa reglu varðandi mannréttindakafla hennar.

Þrátt fyrir að staða stjórnarskrárinnar sé hvergi formlega staðfest í settum lögum hefur hún slíka grundvallarþýðingu fyrir íslenskt réttarkerfi og samfélagsskipan að afar ólíklegt hlýtur að teljast að stöðu hennar verði mótmælt. Stjórnarskráin er það regluverk sem samfélagið hefur komið sér saman um að setja til lengra tíma og til að móta þau grundvallargildi sem við höfum í heiðri. Hún á að geta „staðið af sér hin tíðu veðrabrigði stjórnmálanna og stundarátök þjóðfélagsins“3.

Ísland er að sjálfsögðu ekki eina landið sem hefur stjórnarskrá – það gera flest ríki heimsins. Fyrsta nútíma stjórnarskráin varð til í Bandaríkjunum á 18. öld. Höfundar hennar sóttu mjög í hugmyndir heimspekinga á borð við Platon, Aristóteles og John Locke. Þeir vildu tryggja að hið æðsta vald væri í höndum almennings en jafnframt vildu þeir takmarka þetta vald og búa til reglur um hvernig setja má lög og breyta stjórnarskránni. Með bandarísku stjórnarskránni var hugmyndum um lýðræði, þingræði, réttarríki og mannréttindi í raun steypt saman í eina heild4.

Hins vegar er hollt að hafa í huga að stjórnarskráin í sinni núverandi mynd er ekki eilíf. Samfélög manna þróast og breytast með tímanum og þau grundvallargildi sem við trúum á núna gætu hæglega þótt úrelt seinna meir. Breytingar í samfélaginu leiða til þess að nýjar áherslur verða ofan á í stjórnmálum og skila sér fyrr eða síðar inn í löggjöfina og stjórnarskrána. Kæmist sá stjórnmálaflokkur eða flokkar til valda hér á landi, sem væru ósammála þeim grundvallargildum, sem eru bundin í stjórnarskrána núna, gætu þeir með löglegum hætti gjörbreytt stjórnarskránni eða ógilt hana.

Breytingar á stjórnarskránni eiga sér stað með þeim hætti að þegar Alþingi samþykkir svonefnd stjórnskipunarlög, sem fela í sér breytingar á stjórnaskránni, er þing rofið og boðað til almennra þingkosninga. Nýkosið Alþingi tekur lögin svo aftur fyrir eftir kosningar og samþykki þingið lögin samhljóða taka þau gildi. Næðist víðtæk pólitísk sátt um tilteknar breytingar eða ef einhver stjórnmálaflokkur nyti meirihlutafylgis í kosningum væri því hægt að gjörbreyta eða jafnvel fella stjórnaskrána úr gildi með löglegum hætti.

Eðlilegt er að stjórnarskráin þróist og breytist með tímanum. Tilgangurinn með stjórnarskránni er ekki að hindra eðlilega þróun í þjóðfélaginu, heldur verja grundvallargildi samfélagsins hverju sinni. Ef stjórnarskráin nær ekki að aðlaga sig „bíða hennar sömu örlög og nátttröllsins í þjóðsögunni, hana dagar uppi og hún verður að steini, dauðum bókstaf sem enginn hirðir um...“4

Tilvísanir:

  1. Um lög og lögfræði. Sigurður Líndal. Bls. 86.
  2. Gunnar G. Schram. Stjórnskipunarréttur. Bls. 24.
  3. Atli Harðarson. Lýðræði. Líndæla – Sigurður Líndal sjötugur. Bls. 25-26.
  4. Gunnar G. Schram. Stjórnskipunarréttur. Bls. 24.

Höfundur

Árni Helgason

lögfræðingur og fyrrverandi laganemi við HÍ

Útgáfudagur

23.12.2004

Spyrjandi

Svavar Lúthersson

Tilvísun

Árni Helgason. „Hvaða lagaheimild mælir fyrir að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum?“ Vísindavefurinn, 23. desember 2004, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4678.

Árni Helgason. (2004, 23. desember). Hvaða lagaheimild mælir fyrir að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4678

Árni Helgason. „Hvaða lagaheimild mælir fyrir að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum?“ Vísindavefurinn. 23. des. 2004. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4678>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða lagaheimild mælir fyrir að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum?
Sú regla að stjórnarskráin sé æðri öðrum lögum kemur hvergi fram í settu lagaákvæði. Regluna má leiða af þeirri viðurkenndu stjórnskipunarvenju að dómstólar skeri úr um hvort lög standist stjórnarskrá. Styðst þessi regla við mörg fordæmi dómstóla. Hæstiréttur hefur nokkrum sinnum dæmt lög andstæð stjórnarskrá, fyrst árið 1943 í svokölluðu Hrafnkötlumáli. Þá komst dómurinn að því að lög sem kváðu meðal annars á um einkarétt íslenska ríkisins til að gefa út rit samin fyrir árið 1400, voru talin brjóta gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Reglan um endurskoðunarvald dómstóla er auk þess varin af 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um hvernig breyta megi stjórnarskránni.2

Staða stjórnarskrárinnar er óumdeild og í raun væri óþarft að setja sérstakt ákvæði um stöðu hennar gagnvart öðrum lögum. Slíkt ákvæði myndi ekki breyta stöðu stjórnarskrárinnar lagalega, heldur aðeins staðfesta það sem menn vita nú þegar, að hún er æðri öðrum lögum.

Sett lög frá Alþingi verða að standast ákvæði stjórnarskrár og komist dómstólar að því að þau geri það ekki teljast lögin ekki gild réttarheimild. Þetta á við um öll ákvæði stjórnarskrárinnar en einkum reynir á þessa reglu varðandi mannréttindakafla hennar.

Þrátt fyrir að staða stjórnarskrárinnar sé hvergi formlega staðfest í settum lögum hefur hún slíka grundvallarþýðingu fyrir íslenskt réttarkerfi og samfélagsskipan að afar ólíklegt hlýtur að teljast að stöðu hennar verði mótmælt. Stjórnarskráin er það regluverk sem samfélagið hefur komið sér saman um að setja til lengra tíma og til að móta þau grundvallargildi sem við höfum í heiðri. Hún á að geta „staðið af sér hin tíðu veðrabrigði stjórnmálanna og stundarátök þjóðfélagsins“3.

Ísland er að sjálfsögðu ekki eina landið sem hefur stjórnarskrá – það gera flest ríki heimsins. Fyrsta nútíma stjórnarskráin varð til í Bandaríkjunum á 18. öld. Höfundar hennar sóttu mjög í hugmyndir heimspekinga á borð við Platon, Aristóteles og John Locke. Þeir vildu tryggja að hið æðsta vald væri í höndum almennings en jafnframt vildu þeir takmarka þetta vald og búa til reglur um hvernig setja má lög og breyta stjórnarskránni. Með bandarísku stjórnarskránni var hugmyndum um lýðræði, þingræði, réttarríki og mannréttindi í raun steypt saman í eina heild4.

Hins vegar er hollt að hafa í huga að stjórnarskráin í sinni núverandi mynd er ekki eilíf. Samfélög manna þróast og breytast með tímanum og þau grundvallargildi sem við trúum á núna gætu hæglega þótt úrelt seinna meir. Breytingar í samfélaginu leiða til þess að nýjar áherslur verða ofan á í stjórnmálum og skila sér fyrr eða síðar inn í löggjöfina og stjórnarskrána. Kæmist sá stjórnmálaflokkur eða flokkar til valda hér á landi, sem væru ósammála þeim grundvallargildum, sem eru bundin í stjórnarskrána núna, gætu þeir með löglegum hætti gjörbreytt stjórnarskránni eða ógilt hana.

Breytingar á stjórnarskránni eiga sér stað með þeim hætti að þegar Alþingi samþykkir svonefnd stjórnskipunarlög, sem fela í sér breytingar á stjórnaskránni, er þing rofið og boðað til almennra þingkosninga. Nýkosið Alþingi tekur lögin svo aftur fyrir eftir kosningar og samþykki þingið lögin samhljóða taka þau gildi. Næðist víðtæk pólitísk sátt um tilteknar breytingar eða ef einhver stjórnmálaflokkur nyti meirihlutafylgis í kosningum væri því hægt að gjörbreyta eða jafnvel fella stjórnaskrána úr gildi með löglegum hætti.

Eðlilegt er að stjórnarskráin þróist og breytist með tímanum. Tilgangurinn með stjórnarskránni er ekki að hindra eðlilega þróun í þjóðfélaginu, heldur verja grundvallargildi samfélagsins hverju sinni. Ef stjórnarskráin nær ekki að aðlaga sig „bíða hennar sömu örlög og nátttröllsins í þjóðsögunni, hana dagar uppi og hún verður að steini, dauðum bókstaf sem enginn hirðir um...“4

Tilvísanir:

  1. Um lög og lögfræði. Sigurður Líndal. Bls. 86.
  2. Gunnar G. Schram. Stjórnskipunarréttur. Bls. 24.
  3. Atli Harðarson. Lýðræði. Líndæla – Sigurður Líndal sjötugur. Bls. 25-26.
  4. Gunnar G. Schram. Stjórnskipunarréttur. Bls. 24.

...