Þekking okkar á þyngd villtra yrðlinga heimskautarefs á Íslandi byggist einungis á mælingum á þremur læðum sem voru skotnar einum til tveimur dögum fyrir got. Í legi þessara þriggja dýra voru alls fjórtán yrðlingar, auk eins fósturs sem var uppleyst. Þyngdardreifing fóstranna var á bilinu 56–85 grömm. Meðalþyngdin var 77 grömm sem er heldur meira en erlend rit gera ráð fyrir. Þar er yfirleitt sagt að yrðlingarnar séu um 70 grömm. Lengd yrðlinganna var ekki mæld en ef við gefum okkur töluna 70 grömm og miðum við eðlisþyngdina 1 þá væri ekki fjarri lagi að við fæðingu væru yrðlingarnir um 10 cm x 2,5 cm x 2,5 cm. Yrðlingar stækka mjög hratt fyrstu mánuðina og ná um 90% af fullri stærð eftir um 4 mánuði. Ekkert annað rándýr (Carnivora) vex jafn hratt hlutfallslega og heimskautarefurinn á þessu aldursskeiði. Höfundur þakkar Páli Hersteinssyni, prófessor í líffræði við HÍ kærlega fyrir veitta aðstoð við svarið. Hægt er að lesa fleiri svör við spurningum um refi á Vísindavefnum:
- Hvernig erfist litur á feldi tófunnar?
- Hvað verða refir gamlir?
- Eru til margar tegundir af refum á Íslandi og hverjar eru þær?
- Geta hundar og refir eignast saman afkvæmi?
- Wolfgang Zerbst - Natur- und Tierfotografie
- Walker, Earnest P. 1964. Mammals of the World. 5. útg. II. bindi. Johns Hopkins University Press, Baltimore Maryland.
- Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson (ritstj.) 1993. Villt íslensk spendýr. Hið íslenska náttúrufræðifélag: Landvernd, Reykjavík.
- Páll Hersteinsson, munnleg heimild.