Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Getið þið sagt mér eitthvað um erfðafræði íslenska melrakkans, til dæmis hvernig litarhaft erfist? Einnig hvort tófan hefur blandast alaskaref/silfurref.
Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að skýra út tvö algeng hugtök í erfðafræðinni, svipgerð (e. phenotype) og arfgerð (e. genotype). Arfgerð er samsetning erfðaefnis í tilteknum einstaklingi og því allt það sem einstaklingur hefur erft frá foreldrum sínum. Svipgerð tjáir aftur á móti hvernig gen birtast í útlitinu og þá er orðið útlit notað í mjög víðum skilningi. Í þessu svari um litaafbrigði refs er arfgerðin þeir erfðavísar sem stjórna því hvaða lit viðkomandi refur hefur en svipgerðin er liturinn á feld dýrsins.
Í svari Páls Hersteinssonar við spurningunni Eru til margar tegundir af refum á Íslandi og hverjar eru þær? segir:
Af tófunni eru tvö meginlitarafbrigði, hið hvíta og hið mórauða. Auk þess er allmikill breytileiki í lit innan hvors afbrigðis um sig. Dýr af hvíta litarafbrigðinu eru hvít á vetrum en á sumrin eru þau dökkmógrá á baki og niður með síðum en ljósgrá á kvið og innan á útlimum. Mórauðu dýrin eru flest dökkbrún allt árið, þó heldur ljósari á veturna en sumrin. Sum virðast grásilfruð að vetrarlagi sem stafar af því að hluti vindhára eru með ljóst belti neðan við hárbroddinn.
Erfðavísarnir sem stjórna þessum tveimur litaafbrigðum eða svipgerðum eru tveir:
Ed veldur mórauðum lit
E veldur hvítum lit
Arfgerðin, það er genasamsetningin, getur hins vegar verið þrenns konar, EdEd, EdE, og EE. Þar sem Ed er ríkjandi yfir E verður afkvæmi sem fær Ed erfðavísa frá öðru eða báðum foreldrum mórautt að lit. Tófa með arfgerðina EE er hins vegar með hvítan feld að vetri til. Nánar má lesa um gen og erfðir í svari Guðmundar Eggertssonar við spurningunni Hvað er ríkjandi gen og víkjandi gen?
Í bókinni Villt íslensk spendýr (1993:19) er að finna eftirfarandi töflur sem sýna niðurstöður æxlunar hverrar arfgerðar við sömu arfgerð og allar aðrar arfgerðir hvað varðar erfðavísana Ed og E:
Móðir
Ed
Ed
Faðir
Ed
EdEd
EdEd
Ed
EdEd
EdEd
Afkvæmi:
100% líkur á arfgerðinni EdEd.
100% líkur á mórauðum lit (svipgerð).
Móðir
Ed
Ed
Faðir
Ed
EdEd
EdEd
E
EEd
EEd
Afkvæmi:
50% líkur á arfgerðinni EdEd og 50% líkur á EEd.
100% líkur á mórauðum lit.
Móðir
Ed
Ed
Faðir
E
EEd
EEd
E
EEd
EEd
Afkvæmi:
100% líkur á arfgerðinni EEd.
100% líkur á mórauðum lit.
Móðir
Ed
E
Faðir
Ed
EdEd
EdE
E
EEd
EE
Afkvæmi:
25% líkur á arfgerðinni EdEd, 25% líkur á EE og 50% líkur á EdE.
75% líkur á mórauðum afkvæmum og 25% líkur á hvítum afkvæmum.
Móðir
Ed
E
Faðir
E
EEd
EE
E
EEd
EE
Afkvæmi:
50% líkur á arfgerðinni EEd og 50% líkur á EE.
50% líkur á mórauðum afkvæmum og 50% líkur á hvítum afkvæmum.
Móðir
E
E
Faðir
E
EE
EE
E
EE
EE
Afkvæmi:
100% líkur á arfgerðinni EE.
100% líkur á hvítum afkvæmum.
Eins og lesa má út úr töflunum geta arfhrein mórauð dýr (með arfgerðina EdEd) aðeins eignast mórauð afkvæmi. Arfblendin dýr (arfgerðin EEd) sem ávallt eru mórauð að lit geta hins vegar eignast hvít afkvæmi með öðrum arfblendnum dýrum eða með hvítum dýrum. Afkvæmi tveggja hvítra dýra (arfgerðin EE) verða alltaf hvít.
Á Íslandi lifir aðeins ein tegund villtra refa (Alopex lagopus) en einnig eru í landinu ræktaðir refir sem hafðir eru í búrum til framleiðslu á skinnum. Algengastur þeirra er svonefndur blárefur sem er af blönduðum uppruna. Hann er mun stærri en íslenska tófan, að jafnaði ljósari á lit og mun frjósamari. Blárefir og villta tófan eru sömu tegundar og geta því átt frjó afkvæmi innbyrðis.
Einnig eru ræktaðir silfurrefir sem eru litarafbrigði af rauðref (Vulpes vulpes). Silfurrefir hafa sloppið lausir en aldrei í þeim mæli að þeir hafi náð að fjölga sér í náttúrunni. Vitað er um tilvik þar sem silfurrefur æxlaðist með íslenskum ref en þar sem þessi dýr eru ekki sömu tegundar eru afkvæmin ófrjó.
Nánar er fjallað um refi í áðurnefndu svari Páls Hersteinssonar við spurningunni Eru til margar tegundir af refum á Íslandi og hverjar eru þær? og í svörum Jóns Más Halldórssonar við spurningunum Hvað verða refir gamlir? Geta hundar og refir eignast saman afkvæmi? og Hvað eru refir og úlfar mikið skyldir?Heimild og mynd:
Villt íslensk spendýr í ritstjórn Páls Hersteinssonar og Guttorms Sigbjarnarssonar. Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd. Reykjavík. 1993.
Jón Már Halldórsson. „Hvernig erfist litur á feldi tófunnar?“ Vísindavefurinn, 15. júlí 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4408.
Jón Már Halldórsson. (2004, 15. júlí). Hvernig erfist litur á feldi tófunnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4408
Jón Már Halldórsson. „Hvernig erfist litur á feldi tófunnar?“ Vísindavefurinn. 15. júl. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4408>.